
Miðvörðurinn Bjarki Aðalsteinsson sem gekk í raðir Grindavíkur frá Leikni í vetur var maður leiksins í 3-1 útisigri gegn Val í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Bjarki var hrikalega öflugur í vörninni og auk þess skoraði hann skallamark eftir hornspyrnu.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 3 Grindavík
„Mjög góður dagur, hrikalega sterkur og sætur sigur. Okkur hefur liðið vel varnarlega, menn eru að vinna fyrir hvern annan og eru hrikalega þéttir," segir Bjarki sem var ánægður með að ná inn marki.
„Það var mjög gott að ná inn þessu öðru marki, líka á þeim kafla í leiknum þar sem þeir lágu á okkur meira. Það gaf okkur aðeins meira andrými."
Stuðningsmenn Grindavíkur hertóku stúkuna og voru flottir.
„Þeir hafa verið rosalega flottir í byrjun móts og mega halda því áfram."
Í viðtalinu er Bjarki meðal annars spurður um mark Óskars Arnar Haukssonar sem skoraði frá miðju.
Athugasemdir