
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti mjög góða innkomu í lið Stjörnunnar í 2-0 sigrinum gegn Val í Bestu deildinni á þriðjudagskvöld.
Úlfa Dís, sem er í háskóla í Bandaríkjunum, er nýkomin heim en hún fór beint í byrjunarliðið hjá Stjörnunni og átti mjög góðan leik. Frammistaða hennar skilaði henni sæti í sterkasta liði umferðarinnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, hrósaði Úlfu mikið í viðtali eftir leik.
„Við biðjum alltaf um alveg endalaust frá Úlfu Dís og hún svarar alltaf kallinu," sagði Kristján.
„Hún er alveg einstakur leikmaður. Hún er nýkomin heim og tók tvær æfingar alveg með trompi þannig það var eiginlega ekkert annað hægt en að hún kæmi inn í liðið og frískaði aðeins upp á þetta."
„Það var hugmyndin með að henda henni inn í liðið, að það kæmi einhver ný vídd í sóknarleikinn. Þannig að það virkaði strax."
Úlfa lífgaði upp á sóknarleik Stjörnunnar en hægt er að sjá viðtalið við Kristján í heild sinni hér fyrir neðan.
Athugasemdir