Það er komin upp áhugaverð staða á Hlíðarenda sem er sjaldséð í íslenskum fótbolta. Aron Jóhannsson er samningsbundinn Val en hefur verið tjáð það að mæta ekki á æfingar eða í leiki.
Valsmenn sendu frá sér tilkynningu í síðasta mánuði þar sem sagt var að Aron hefði verið leystur undan starfsskyldum sínum hjá félaginu; orðalag sem margir ráku augun í.
Valsmenn sendu frá sér tilkynningu í síðasta mánuði þar sem sagt var að Aron hefði verið leystur undan starfsskyldum sínum hjá félaginu; orðalag sem margir ráku augun í.
Aron er samningsbundinn Val þangað til í nóvember á næsta ári. Stjórn fótboltadeildar ákvað að hann þyrfti hins vegar ekki að gegna þeirri skyldu að mæta á æfingar hjá félaginu og samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur honum verið bannað að mæta á æfingar með liðinu.
Það þykir nokkuð ljóst að Aron mun ekki spila aftur fyrir Val, en hvernig framhaldið verður er óljóst. Hann hefur verið orðaður við Grindavík en ef hann semur við annað félag þá þarf það félag að taka við samningi hans sem er einn sá stærsti í íslenskum fótbolta.
Sumir velta fyrir sér hvort það sé löglegt að meina manni að mæta til vinnu þegar hann er samningsbundinn. Fótbolti.net hafði því samband við lögfræðinginn Pál Kristjánsson og spurðist fyrir um þetta mál frá lögfræðilegu sjónarhorni.
„Maður les stöðuna þannig að þeir vilji ekki hafa hann í æfingahóp eða í kringum liðið. Samningsskyldur eru gagnkvæmar. Þeir geta hafnað hans vinnuframlagi en þeim ber að greiða honum út samning meðan sá samningur er í gildi. Þannig að þetta er alveg lögfræðilega rétt og eðlilegt," segir Páll.
„Ef hann semur við annað lið þá munu þessar skyldur falla niður. Það verður væntanlega samið um starfslok á næsu misserum. Trúi ekki öðru."
Athugasemdir



