
Fótbolti.net náði tali af landsliðsþjálfaranum Frey Alexandersyni eftir 5-0 sigurinn á Möltu í kvöld. Íslenska liðið landaði þar þremur stigum en hefði getað unnið enn stærra miðað við yfirburðina á vellinum. Freyr var nokkuð sáttur í leikslok þrátt fyrir að færanýtingin hafi ekki verið sú besta.
„Þetta er búið. Það er gott að klára þetta verkefni, ná í þrjú stig, skora fimm mörk og halda hreinu. Ekki fá spjöld, þetta klassíska. Þetta var stórfurðulegur leikur. Þær reyndu ekki einu sinni að sækja. Við vorum ótrúlega mikið með boltann og sköpum okkur hátt í 50 marktækifæri. Það er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður.“
„Það vantaði eitthvað. Eitthvað þarna inni í teig og við erum að klára færin okkar illa og erum svona hálfklaufsk eitthvað. Við höfum oft talað um að íslenska liðið eigi erfitt með að halda bolta innan liðs og færa hann á milli og eitthvað svoleiðis. Það var í lagi. Við erum að bæta það og við erum búin að tala mikið um það að við séum að reyna að bæta það. Kannski bitnaði það aðeins á því að fókusera á það sem var að gerast inni í teig. Mögulega. En þetta var líka kannski bara einn af þessum dögum.
Þrátt fyrir að færanýtingin hafi ekki verið sú besta segir Freyr að liðið geti tekið ýmislegt jákvætt út úr leiknum.
„Ég held að ég verði kannski aðeins að minnka kröfurnar að einhverju leyti þó að ég vilji að leikmennirnir setji kröfur á sig og við viljum gæði þá fengum við allavega að sjá það sem við vildum. Svona mestmegnis.“
„Elín Metta skorar sín fyrstu A-landsliðsmörk. Hún er náttúrulega ungur og mjög efnilegur framherji og það er gott fyrir hana að vera búin að skora. Hún spilaði líka vel í leiknum og það var mjög flott. Svo fannst mér þetta boltaflæði gott. Við vorum að reyna að láta hann vinna hratt fyrir okkur og svoleiðis. Þolinmæði og ýmislegt jákvætt.“
Næsti leikur Íslands er heimaleikur gegn Danmörku. Freyr talar um þrjá næstu leiki sem úrslitaleiki og lofar íslenskum stuðningsmönnum hörkuleik gegn Dönum.
„Það eru Danir 21. ágúst. Það eru bara þrír úrslitaleikir hjá okkur í þessum riðli. Við byrjum á Dönum og það verður virkilega skemmtilegt verkefni og ég lofa fólki að það fái frábæran leik. Eitthvað annað en var hérna í dag. Andstæðingarnir verða virkilega skemmtilegt lið og við elskum öll að vinna Dani. Við ætlum að vinna þá hérna heima og ég vona bara að það verði fullt af fólki og frábær stemmning í Laugardalnum þann 21. ágúst".
Íslenska liðið er nýkomið heim frá Danmörku þar sem það gerði 1-1 jafntefli. Við hverju má búast frá danska liðinu í síðari viðureigninni?
„Góðu liði í að halda bolta. Með góða einstaklinga, mikla tækni, mikla reynslu og vel skipulagðar. Þetta er heilt yfir mjög gott fótboltalið. Það var vel tekist á í Danmörku, heiðarleg barátta og frábærlega dæmdur leikur líka. Þar fengu leikmenn að takast á. Eitthvað annað en hérna í dag og ég vona að við fáum þar frábæra auglýsingu fyrir kvennaknattspyrnu.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Frey í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir