
„Við vorum frekar slakar í fyrri hálfleik en mér fannst við spila mjög vel í seinni hálfleik. Við náðum upp hröðu spili og héldum boltanum betur,“ sagði Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Fylkis, eftir 1-1 jafntefli gegn ÍBV í kvöld.
ÍBV náði forystunni strax á upphafsmínútum leiksins en Fylkir jafnaði eftir tæplega klukkustundarleik.
„Við vorum ekki tilbúnar þegar leikurinn byrjaði en áttum sem betur fer seinni hálfleikinn eftir. En við verðum að gera betur næst. Þetta er búið að vera upp og niður hjá okkur og við erum að gera of mikið af jafnteflum,“ segir Berglind Rós sem vill meina að Fylkiskonum vanti meiri grimmd fyrir framan mark andstæðinganna.
En hefur Berglind Rós trú á að hægt verði að klára Íslandsmótið á tímum Covid?
„Ég ætla að vera bjartsýn. Maður vill auðvitað spila. Fylkisfólk er búið að standa sig vel í að halda öllum reglum og allt það. Ef öll lið fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis þá held ég að við náum að klára mótið.“
Nánar er rætt við Berglindi Rós í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir