
Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur er vongóður fyrir umspilsleik liðsins gegn Njarðvík á morgun. Liðið fór á Laugardalsvöll í fyrra í úrslitaleik umspilsins en tapaði þar fyrir Aftureldingu. Hann segir liðið staðráðið í að fara alla leið í ár.
Það stóð á tæpu á að Keflavík næði í umspilið. Keflavík þurfti sigur gegn Selfoss í lokaumferð Lengjudeildarinnar og að treysta á að ÍR myndi tapa gegn Fylki til þess að tryggja sér sæti í umspilinu.
Það stóð á tæpu á að Keflavík næði í umspilið. Keflavík þurfti sigur gegn Selfoss í lokaumferð Lengjudeildarinnar og að treysta á að ÍR myndi tapa gegn Fylki til þess að tryggja sér sæti í umspilinu.
„Okkar leikur klárast nokkrum mínútum fyrir ÍR-leikinn. Það var bara dauðaþögn eftir leik. Selfoss var ekki að fagna neinu og við ekki heldur. Það var ekki fyrr en að áhorfandi úr stúkunni kallaði að sá leikur væri búinn og þá voru menn auðvitað mjög ánægðir og fögnuðu.“
„Það eru svo sem sömu verðlaun fyrir að lenda í öðru sæti eða því fimmta. Nú er mótið búið og við komnir í undanúrslit. Þetta var markmiðið okkar þegar við sáum að það var ekki raunhæft að taka toppsætið.“
Keflavík mætti síðast Njarðvík fyrir tíu dögum og fóru þeir þá með sigur af hólmi í grannaslagnum.
„Það er frábært fyrir bæjarfélagið að fá þennan leik. Það var fullt af fólki síðast og mikil stemning. Það verður það klárlega aftur, mönnum hlakkar til og við hvetjum stuðningsmenn til að mæta og styðja við bakið á okkur.“
„Sigurinn nærir og gefur þér sjálfstraust. Við erum núna búnir að vinna tvo leiki í röð og við erum brattir. Ég myndi halda fyrirfram að leikurinn verði svipaður og síðast. Frekar jöfnum og lokuðum leik, mikið um stöðubaráttu og návígi.“
Mun reynslan frá Laugardalsvelli í fyrra hjálpa liðinu?
„Það hjálpar okkur klárlega. Leikmennirnir hafa upplifað þetta áður og fundu hvað við vorum nálægt því að fara alla leið í fyrra. Ég held að menn séu staðráðnir í að gera það í ár.“
Haraldur segir alla leikmenn vera til taks fyrir morgundaginn og hvetur stuðningsmenn til að mæta á HS Orku-völlinn til að styðja við bakið á liðinu.
Fyrri leikur liðanna hefst klukkan 16:45 í Keflavík á morgun. Síðari viðureignin fer svo fram á JBÓ-vellinum í Njarðvík á sunnudag. Sigurvegari einvígisins mætir annaðhvort Þrótti R. eða HK í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Athugasemdir