Desire Doue var eitt af þeim ungstirnum sem sló í gegn í Meistaradeildinni á síðasta tímabili en hann hjálpaði Paris St-Germain alla leið að sigri í keppninni. Lamine Yamal hjá Barcelona var valinn í úrvalslið tímabilsins.
En hvaða ungstirni eru líkleg til að heilla á þessu tímabili? Meistaradeildin fer af stað í dag og BBC tók saman tíu táninga sem vert er að beina sjónum að.
Vasilije Adzic (Juventus) - 19 ára svartfellskur miðjumaður sem gekk í raðir Juve frá Buducnost Podgorica. Hann lék níu leiki með Juve á síðasta tímabili, þar af einn í Meistaradeildinni.
Jobe Bellingham (Borussia Dortmund) - 19 ára enskur miðjumaður sem fetaði sama veg og bróðir hans og fór frá Englandi til Dortmund. Mun meðal annars mæta Manchester City og Tottenham.
Claudio Echeverri (Bayer Leverkusen (á láni frá Manchester City)) - 19 ára argentínskur sóknarmiðjumaður/vængmaður. City er með möguleika á að kalla hann til baka í janúar. Echeverri skoraði sitt fyrsta mark fyrir City með öflugri aukaspyrnu gegn Al-Ain á HM félagsliða.
Jorrel Hato (Chelsea) - 19 ára varnarmaður sem hefur þegar leikið sex A-landsleiki fyrir Holland. Getur bæði leikið sem bakvörður og miðvörður og var frábær hjá Ajax áður en hann var keyptur til Chelsea í sumar.
George Ilenikhena (Mónakó) - 19 ára kraftmikill sóknarmaður sem er að þróast hratt. Var áður hjá Amiens og Royal Antwerpen. Hefur tvisvar skorað gegn Barcelona í Meistaradeildinni, fyrst með belgíska liðinu og svo Mónakó.
Franco Mastantuono (Real Madrid) - 18 ára argentínskur miðjumaður sem talinn er einn efnilegasti leikmaður heims. Madrídingar fengu hann frá River Plate.
Senny Mayulu (Paris St-Germain) - 19 ára en þegar kominn með tvo Frakklandsmeistaratitla á ferilskrá sinni. Miðjumaður sem kom af bekknum og skoraði fimmta mark PSG í 5-0 burstinu gegn Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili.
Rio Ngumoha (Liverpool) - 17 ára vængmaður sem Liverpool fékk frá Chelsea og hefur þegar slegið í gegn. Varð yngsti markaskorari Liverpool í ensku úrvalsdeildinni þegar hann skoraði eftirminnilegt sigurmark í 3-2 sigri gegn Newcastle í ágúst.
Ethan Nwaneri (Arsenal) - 18 ára sóknarmiðjumaður sem byrjaði 16 leiki í öllum keppnum fyrir Arsenal á síðasta tímabili og lék aðra 21 af bekknum. Hann skoraði níu mörk, þar af tvö í Meistaradeildinni.
Athugasemdir