Ákveðinn í að fá Haaland til Barcelona - City veitir Liverpool keppni um Guehi - Everton mun ekki hlusta á tilboð í Branthwaite
   þri 16. september 2025 12:01
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Emil Ásmunds leggur skóna á hilluna (Staðfest) - „Lék, lifði, barðist og þjáðist"
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkismaðurinn Emil Ásmundsson hefur lagt skóna á hilluna. Hann er þrítugur miðjumaður sem uppalinn er hjá Fylki og spilaði lengst á ferlinum með uppeldisfélaginu.

Ungur að árum fór hann til Brighton á Englandi og var í þrjú ár. Eftir tímabilið 2019 samdi Emil við KR en meiddist illa, ekki í eina skiptið á ferlinum, og spilaði ekki deildarleik fyrr en í september 2021. Hann sneri svo aftur í Fylki fyrir tímabilið 2022 og lék síðustu fjögur tímablin á ferlinum með uppeldisfélaginu.

Hann missti af byrjuninni á þessu tímabili vegna meiðsla, náði að spila ellefu leiki og skoraði í þeim þrjú mörk.

Alls lék Emil 172 KSÍ leiki á ferlinum og skoraði 24 mörk. Hann lék einnig 25 leiki fyrir yngri landsliðin og skoraði í þeim þrjú mörk.

Færsla Emils
25 ár sem elskhugi af fallegustu íþrótt í heimi. Lék, lifði, barðist og þjáðist - en fyrst og fremst elskaði hverja einustu mínútu. Takk fyrir mig

Tilkynning Fylkis
Okkar ástkæri Emil hefur ákveðið að láta af störfum á afreksstigi knattspyrnunnar og segir því þetta gott. Emil leggur skóna á hilluna aðeins 30 ára gamall.

Emil spilaði upp alla yngri flokka Fylkis og lék samtals 189 leiki fyrir meistaraflokk félagsins. Hann skoraði 26 mörk fyrir félagið, þar á meðal þrjú mörk í 11 leikjum í Lengjudeildinni í sumar.

Hann spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki aðeins 17 ára gamall og gekk að sumri 2012 til liðs við Brighton á Englandi þar sem hann lék í þrjú ár áður en hann sneri aftur heim í Fylki.

Emil á að baki 25 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði þar þrjú mörk. Þar á meðal lék hann á lokamóti EM U19 árið 2014.

Við óskum Emil innilega til hamingju með frábæran feril og þökkum honum kærlega fyrir sitt framlag til félagsins.


Athugasemdir
banner