Næstu þrír leikir ráða framtíð Amorim - Glasner, Southgate, Silva og Iraola orðaðir við Man Utd - Liverpool horfir til Araujo
   mið 17. september 2025 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lofsama Mikael Anderson - „Ótrúlega mikill fagmaður"
Mikael í leiknum gegn Aserbaísjan fyrr í þessum mánuði.
Mikael í leiknum gegn Aserbaísjan fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson hefur komið mjög vel inn í lið Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið keyptur frá AGF á væna summu í sumar.

Djurgården hefur einungis tapað einum leik frá komu Mikaels, deildarleikirnir eru níu, sigrarnir fjórir og jafnteflin fjögur, Mikael hefur byrjað alla leikina. Þá fór liðið áfram í undankeppni sænska bikarsins.

Menn hjá Djurgården fara fögrum orðum um íslenska landsliðsmanninn.

„Ég er hrifinn af breytingunum sem hafa orðið með nýju leikmönnunum. Liðið hefur breyst með þeim, líka á æfingum. Mikael hefur sérstaklega haft áhrif á það hvernig liðið tikkar," sagði þjálfarinn Jani Honkavaara eftir 3-3 jafnteflið gegn Hammarby á sunnudag.

„Hann kemur inn með kröfur á æfingasvæðinu og bætir við liðið. Það sést líka á leik hans. Mér líkar hvernig við hreyfum okkur sem lið núna."

Íþróttastjórinn Bosse Anderson er líka mjög ánægður með Mikael.

„Hann er hrikalega góður. Hann er ótrúlega mikill fagmaður sem fær aðra með sér. Hann gerir aðra spennta og gerir aðra í kringum sig betri. Í þessum leik var hann besti maður vallarins þær 75 mínútur sem hann spilaði. Hann vill axla ábyrgð og vill vera leiðtogi. Það eru góð teikn fyrir framtíðina."

Samherji Mikaels, Adam Ståhl, hrósaði honum.

„Hann er karakter á margan hátt. Hann setur kröfur á sjálfan sig og á okkur. Hann er alvöru sigurvegari. Hann hefur komið inn með góða orku. Að koma inn í stórt félag og ná að hafa áhrif á hugarfarið eða að ná að axla ábyrgð er ekki auðvelt. En hann hefur náð því. Hann er mjög fínn gæi heilt yfir," segir Ståhl.

Djurgården er í 8. sæti sænsku deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir. Átta stig eru upp í Evrópusæti.
Athugasemdir
banner