Englandsmeistarar Liverpool unnu Atlético Madríd, 3-2, í 1. umferð í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í hádramatískum leik í kvöld. Evrópumeistarar Paris Saint-Germain unnu öruggan 4-0 sigur á Atalanta á meðan heimsmeistarar Chelsea töpuðu fyrir Bayern München, 3-1, í Þýskalandi.
Mikil eftirvænting var hjá stuðningsmönnum Liverpool fyrir þennan leik, en þeir voru að fara sjá sænska framherjann Alexander Isak í eldlínunni í fyrsta sinn.
Hann var settur í byrjunarliðið eftir að hafa verið utan hóps gegn Burnley um helgina.
Isak skapaði sér tvö færi í leiknum, en Liverpool þurfti ekki að treysta á Svíann í þessum leik heldur var það Mohamed Salah sem sá um að afgreiða þennan leik.
Salah átti stóran þátt í fyrsta marki Liverpool. Hann tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn sem fór af Andy Robertson og í netið. Jan Oblak kom engum vörnum við í marki Atlético.
Tveimur mínútum síðar bætti Salah við öðru eftir frábært samspil með Ryan Gravenberch. Hollendingurinn fékk boltann frá Salah, lagði hann skemmtilega fyrir Salah sem skoraði með laglegu skoti.
Einhverjir hafa gagnrýnt Salah í byrjun leiktíðar, sem er nú kominn með þrjú mörk í fimm keppnisleikjum.
Marcos Llorente minnkaði muninn fyrir Atlético undir lok fyrri hálfleiks eftir vel útfærða sókn gestanna. Llorente fékk sendingu sem hann þurfti að teygja sig í og náði hann að pota honum með ágætis krafti í vinstra hornið.
Upphaflega var gert ráð fyrir að Isak myndi aðeins spila hálfleik, en Arne Slot hélt honum áfram inn á í þeim síðari. Hann fór síðan af velli eftir tæpan klukkutíma. Á þessum klukkutíma skapaði hann sér tvö ágætis færi.
Mohamed Salah fékk algert dauðafæri til að koma Liverpool aftur í tveggja marka forystu eftir hraða skyndisókn sem Florian Wirtz og Dominik Szoboszlai voru arkitektarnir að. Boltanum var síðan komið inn á Salah sem var í dauðafæri en setti boltann í stöng.
Á 74. mínútu kom söguleg stund hjá Liverpool er enska vængmanninum Rio Ngumoha var skipt inn á fyrir Wirtz, en hann varð þar með yngsti leikmaður í sögu félagsins til að spila í Evrópukeppni.
Sjö mínútum síðar jöfnuðu Atlético-menn með svakalegu marki. Annað mark Llorente og var það af dýrustu gerð. Spánverjinn fékk boltann á lofti fyrir utan teig, þurfti að bakka aðeins, áður en hann þrumaði honum viðstöðulaust í markið.
Liverpool hefur skorað sigurmark í uppbótartíma í öllum þremur deildarleikjum sínum á tímabilinu og hélt liðið uppteknum hætti á tímabilinu.
Fyrirliðinn Virgil van Dijk stangaði hornspyrnu Dominik Szoboszlai í netið og fagnaði því vel og innilega. Diego Simeone, þjálfari Atlético, fékk í kjölfarið að líta rauða spjaldið fyrir að rífast við stuðningsmenn Liverpool sem sátu fyrir aftan hann.
Undir lokin gat Hugo Ekitike gert endanlega út um leikinn, en brást bogalistin. Englandsmeistararnir kláruðu samt sitt og gátu í raun ekki beðið um betri byrjun þetta árið.
Evrópumeistararnir byrja vel
Evrópumeistarar Paris Saint-Germain hófu titilvörnina á 4-0 sigri á Atalanta á Parc des Princes.
Brasilíumaðurinn Marquinhos elti leikmann Atalanta eins og óður hundur í átt að teignum. Atalanta tapaði boltanum og ákvað Marquinhos að vera með í sókninni. Fabian Ruiz lagði boltann síðan inn á markteiginn á Marquinhos sem skoraði. Frábærlega gert hjá þeim báðum.
Khvicha Kvaratskhelia bætti við öðru á 39. mínútu með þrumuskoti eftir frábært einstaklingsframtak. Bradley Barcola gat gert þriðja markið undir lok hálfleiksins, en Marco Carnesacchi las vítið og varði nokkuð örugglega.
Barcola bætti PSG það upp snemma í síðari hálfleik með því að leggja upp fyrir Nuno Mendes áður en Goncalo Ramos kórónaði frábæra frammistöðu franska liðsins með marki undir lokin.
Chelsea tapaði í Þýskalandi
Heimsmeistarar Chelsea töpuðu fyrir Bayern München, 3-1, á Allianz Arena.
Trevoh Chalobah setti boltann í eigið net á 20. mínútu eftir fyrirgjöf Michael Olise og skoraði Kane sitt 20. Meistaradeildarmark fyrir Bayern aðeins sjö mínútum síðar úr vítaspyrnu.
Cole Palmer kom Chelsea aftur inn í leikinn með marki tveimur mínútum síðar, en mistök Malo Gusto hálftíma fyrir leikslok kom Bayern aftur í þægilega forystu.
Hann tapaði boltanum í bakverðinum og skaust boltinn inn í teiginn til Kane sem skoraði annað mark sitt í leiknum.
Góður sigur hjá Bayern sem ætlar sér stóra hluti í Meistaradeildinni í ár.
Marcus Thuram skoraði þá bæði mörk Inter sem vann Ajax 2-0 í Amsterdam.
Frakkinn skoraði með skalla eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og gerði annað mark sitt eftir nákvæmlega sömu uppskrift í upphafi síðari.
Inter-menn byrja af krafti, en ítalska liðið hefur komist í úrslit keppninnar tvisvar á síðustu þremur árum.
Ajax 0 - 2 Inter
0-1 Marcus Thuram ('42 )
0-2 Marcus Thuram ('47 )
Paris Saint Germain 4 - 0 Atalanta
1-0 Marquinhos ('3 )
2-0 Khvicha Kvaratskhelia ('39 )
2-0 Bradley Barcola ('44 , Misnotað víti)
3-0 Nuno Mendes ('51 )
4-0 Goncalo Ramos ('90 )
Liverpool 3 - 2 Atletico Madrid
1-0 Andrew Robertson ('4 )
2-0 Mohamed Salah ('6 )
2-1 Marcos Llorente ('45 )
2-2 Marcos Llorente ('81 )
3-2 Virgil van Dijk ('90 )
Bayern 3 - 1 Chelsea
1-0 Trevoh Chalobah ('20 , sjálfsmark)
2-0 Harry Kane ('27 , víti)
2-1 Cole Palmer ('29 )
3-1 Harry Kane ('63 )
Athugasemdir