Andy Robertson, varafyrirliði Liverpool og fyrirliði Skotlands, ætlar að berjast fyrir byrjunarliðssætinu hjá Liverpool eftir komu Milos Kerkez úr röðum Bournemouth.
Robertson er búinn að missa byrjunarliðssætið sitt eftir að félagið keypti Kerkez í sumar en hann er staðráðinn í því að láta finna fyrir sér í baráttunni um sætið.
Kerkez hefur byrjað alla leiki Liverpool á tímabilinu en honum var skipt af velli í fyrri hálfleik gegn Burnley í gær.
Bakvörðurinn fékk gult spjald og óttaðist Arne Slot að missa hann af velli með annarri slæmri tæklingu. Hann ákvað því að skipta Robertson inn í hans stað.
Robertson er 31 árs gamall, tíu árum eldri en Kerkez, og var orðaður við félagaskipti til Atlético Madrid í sumar. Fyrir tilviljun á Liverpool leik við Atlético í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar í vikunni.
„Á tímapunkti leit út fyrir að ég gæti verið að skipta um félag í sumar en ég varð eftir að lokum," sagði Robertson eftir leikinn gegn Burnley.
„Ég vil spila leiki og vera í byrjunarliðinu hérna. Ég þarf að gera mitt allra besta til að komast í liðið því samkeppnin er svakaleg.
„Landsleikjahléð var mikilvægt fyrir mig, ég fékk að spila tvo heila leiki sem hjálpuðu að koma mér í leikform. Við náðum í mjög góð úrslit fyrir Skotland og ég öðlaðist mikið sjálfstraust við það."
Athugasemdir