Edinson Cavani, markahæsti leikmaður í sögu PSG, skrifaði undir samning við Manchester United í byrjun mánaðar og hefði hann getað mætt sínum fyrrum liðsfélögum í fyrsta leik með Rauðu djöflunum.
Hann er þó ekki í leikmannahópinum sem heimsækir PSG í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld. Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, segir að Cavani sé ekki tilbúinn til að spila keppnisleik.
„Við vildum taka hann með í dag en það er alltof langt síðan hann spilaði fótbolta, hann er ekki klár í slaginn. Það er smá sorglegt en á þessum tímapunkti er betra fyrir hann að halda áfram að æfa og koma sér í leikform," sagði Solskjær.
„Edi þekkir líkamann sinn vel og hann sagðist ekki vera tilbúinn."
Bruno Fernandes hefur verið frábær frá komu sinni til Man Utd í janúar og mun bera fyrirliðabandið gegn PSG. Hann hefur miklar mætur á nýja liðsfélaga sínum Cavani og hrósaði honum í hástert.
„Það er eðlilegt að hann sé ekki í hóp, hann er bara búinn að æfa með okkur í tvo daga. Hann þarf bara að koma sér í form," sagði Fernandes.
„Hann hefur farið vel af stað á æfingum og smellpassar í leikmannahópinn. Hann æfir af miklum krafti og hefur augljóslega alla burði til að vera leiðtogi hjá okkur. Hann mun vera mikilvægur leikmaður fyrir okkur."
Athugasemdir