Markvörðurinn Amber Kristin Michel hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna.
Þetta staðfestir hún í samtali við Fótbolta.net.
Þetta staðfestir hún í samtali við Fótbolta.net.
Jón Stefán Jónsson, fyrrum þjálfari Tindastóls, sagði frá því í Heimavellinum í síðustu viku að Amber, sem er fædd árið 1997, væri að öllum líkindum hætt í fótbolta þar sem hún er búin að fá góða vinnu í heimalandi sínu. Hún staðfesti svo að það væri rétt.
Amber hefur leikið í marki TIndastóls frá 2020 og gert það ótrúlega vel, en hún verður ekki með liðinu í sumar.
„Ég held að það sé mikil blóðtaka fyrir liðið að missa Amber úr markinu," sagði Jón Stefán og bætti við: „Hún fékk það góða vinnu út í Bandaríkjunum að ég held að hún sé hætt í fótbolta. Það er synd því hún er mjög góður leikmaður."
Fyrr í vetur samdi Monica Wilhelm við Tindastól en þar er á ferðinni annar bandarískur markvörður sem lék með háskólanum í Iowa í fimm ár. Hún er 23 ára gömul.
Tindastóll er nýliði í Bestu deild kvenna, en liðið endaði í öðru sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.
Athugasemdir