
„Gríðarlega sáttur, Fyllilega verðskuldaður sigur að mínu mati." sagði Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra eftir sigurinn á Leikni Reykjavík á Domusnovavellinum í Breiðholti en leikurinn endaði 1-2 fyrir Vestramönnum.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 2 Vestri
„Við vorum kannski ekki alveg nógu beittir á síðasta þriðjung. Við hefðum átt að nýta okkar færi til að skora mark töluvert betur. Við komum okkur í góðar leikstöður en vantaði svona extra odd í þetta fram á við."
„Þetta var fyrir mér ein af okkar betri frammistöðum svona heilt yfir í 90 mínútur. Markið sem þeir skora er svona hálf klaufalegt, fer í stöngina og þeir fylgja vel á eftir en eins og ég segi bara hrikalega sáttur með liðið í dag."
Vestramenn voru betri aðilinn allan leikinn og komust yfir. Leiknismenn náðu inn jöfnunarmarkinu en Vestramenn voru ekki lengi að komast yfir aftur og sýndu góðan karakter.
„Stærsta gameplanið fyrir leikinn var bara að við ætluðum að koma hérna og gefa okkur alla í þetta. Við ætluðum ekki liggja til baka og ætluðum að skila fullt af orku á völlinn og mér fannst við gera það í dag. Mér fannst við hrikalega agressívir og völdum okkar moment, pressuðu mjög vel og mér fannst þetta bara eins og ég segi hrikalega góð frammistaða og heilt yfir frá öllu liðinu."