Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Berglind Björg Þorvaldsdóttir sýndi Val hvað það missti - þegar félagið ákvað að endursemja ekki við hana eftir síðasta tímabil - þegar hún skoraði tvennu í stórleik umferðarinnar í Bestu deild kvenna.
Það er mikill munur á Breiðabliki og Val í dag, en það sást vel á Kópavogsvelli síðasta föstudag er Blikar völtuðu yfir andlaust Valslið. Berglind var maður leiksins og er sterkasti leikmaður umferðarinnar í boði Steypustöðvarinnar.
Það er mikill munur á Breiðabliki og Val í dag, en það sást vel á Kópavogsvelli síðasta föstudag er Blikar völtuðu yfir andlaust Valslið. Berglind var maður leiksins og er sterkasti leikmaður umferðarinnar í boði Steypustöðvarinnar.
Berglind sneri aftur heim í Kópavoginn fyrir tímabil eftir að Valur rifti samningi við hana. Hún var á mála hjá Val á síðasta tímabili eftir að hún kom til baka eftir barnsburð. Hún var nú líklega í smá hefndarhug þegar hún mætti inn á Kópavogsvöll á föstudag.
„Mér var tilkynnt símleiðis á mánudaginn að samningnum mínum hefði verið sagt upp. Það kom mér mjög á óvart, og einnig þótti mér þetta ófagmannlegt að fá svona fréttir í gegnum símann. En ég frétti það í gær að ný stjórn væri að taka við þannig að það kemur í ljós hvað verður," sagði Berglind í vetur þegar samningi hennar við Val var rift. Hún samdi svo við Breiðablik og þar hefur hún verið frábær.
Berglind er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, búin að skora sjö mörk. Hún hefur gert einu marki meira en allt Valsliðið í sumar. Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í mögulega endurkomu Berglindar í landsliðið á fréttamannafundi í síðustu viku.
„Auðvitað færistu alltaf nær þegar vel gengur og þú ert að spila vel. Það segir sig sjálft," sagði Þorsteinn við því en Evrópumótið er framundan í sumar.
Sterkastar í síðustu umferðum:
1. umferð - Samantha Smith (Breiðablik)
2. umferð - Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir (Víkingur R.)
3. umferð - Fanndís Friðriksdóttir (Valur)
4. umferð - Alda Ólafsdóttir (Fram)
5. umferð - Sandra María Jessen (Þór/KA)
Athugasemdir