Rashford lækkar launakröfur til að komast til Barcelona - Napoli vill Kiwior - Aston Villa í leit að markverði
   sun 18. maí 2025 16:00
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Vítaspyrnumark Tibbling réði úrslitum í Úlfarsárdal - Markalaust í Eyjum
Simon Tibbling var hetja Framara í dag
Simon Tibbling var hetja Framara í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri tapaði öðrum leik sínum í deildinni
Vestri tapaði öðrum leik sínum í deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV og KA gerðu markalaust jafntefli
ÍBV og KA gerðu markalaust jafntefli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar unnu þriðja deildarleik sinn á tímabilinu er liðið lagði Vestra, 1-0, í 7. umferð Bestu deildarinnar á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í dag. ÍBV og KA gerðu á meðan markalaust jafntefli í Vestmannaeyjum.

Vestri hafði aðeins tapað einum leik og verið heitasta lið deildarinnar fram að leiknum í dag.

Það var lítið um færi fyrsta hálftímann eða svo. Vuk Oskar Dimitrijevic kom sér í fínasta færi á 6. mínútu en Guy Smit sá við honum í markinu.

Liðin voru í basli með að koma boltanum að marki næstu tuttugu mínúturnar og vantaði oft upp á síðasta þriðjungi vallarins, en það lagaðist eftir hálftímaleik.

Jeppe Pedersen átti skalla framhjá og þá fór Róbert Hauksson illa með gott færi á hinum enda vallarins.

Vuk hafði verið mikið í boltanum í leiknum. Hann setti boltann í netið stuttu síðar en markið dæmt af vegna rangstöðu og rétt eftir það fiskaði hann vítaspyrnu eftir viðskipti sín við Sergine Fall.

Simon Tibbling skoraði með góðu skoti sem reyndist vera sigurmark leiksins.

Vestri setti ágætis pressu á Framara í lok leiksins. Gestirnir vildu vítaspyrnu þegar tuttugu mínútur voru eftir er Morten Ohlsen virtist setja boltann í hönd Framara, en Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, lét leikinn halda áfram.

Um það bil fimm mínútum fyrir leikslok kölluðu þeir aftur eftir hendi víti en aftur sagði Ívar nei. Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var bersýnilega mjög ósáttur á hliðarlínunni.

Framarar stóðu af sér þunga pressu Vestra og fögnuðu þriðja sigri sínum í deildinni. Fram er með 9 stig í 6. sæti en Vestri áfram í 2. sæti með 13 stig.

Markalaust í Eyjum

ÍBV og KA gerðu markalaust jafntefli á Þórsvellinum í Vestmannaeyjum.

KA-menn hafa verið í miklu basli á tímabilinu og aðeins unnið einn deildarleik og er dottið úr leik í bikarnum á meðan ÍBV hefur verið á ágætis flugi í deild og bikar.

Fyrri hálfleikurinn einnkendist af baráttu, hálffærum og aukaspyrnum, en hvorugu liðinu tókst að búa sér til eitthvað sem mætti kalla dauðafæri.

Gestirnir fengu að minnsta kosti fjórar aukaspyrnur á stórhættulegum stað en fóru illa með þær. Sú fjórða kom seint í uppbótartíma en niðurstaðan sú sama.

Lokatölur 0-0. Eyjamenn fara upp í 7. sæti deildarinnar með 8 stig og þá er KA komið upp úr neðsta sæti og komið í næst neðsta með 5 stig.

Fram 1 - 0 Vestri
1-0 Simon Tibbling ('40 , víti)
Lestu um leikinn

ÍBV 0 - 0 KA
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 6 4 1 1 13 - 5 +8 13
2.    Vestri 7 4 1 2 8 - 3 +5 13
3.    Breiðablik 6 4 1 1 11 - 8 +3 13
4.    KR 6 2 4 0 19 - 11 +8 10
5.    Valur 6 2 3 1 14 - 10 +4 9
6.    Fram 7 3 0 4 11 - 11 0 9
7.    Stjarnan 6 3 0 3 9 - 10 -1 9
8.    ÍBV 7 2 2 3 7 - 11 -4 8
9.    Afturelding 6 2 1 3 4 - 7 -3 7
10.    ÍA 6 2 0 4 6 - 15 -9 6
11.    KA 7 1 2 4 6 - 15 -9 5
12.    FH 6 1 1 4 9 - 11 -2 4
Athugasemdir
banner