Sævar Atli Magnússon og félagar í Lyngby eru fallnir niður í dönsku B-deildina eftir 5-1 tap liðsins gegn SönderjyskE í dag.
Fyrir leikinn átti Lyngby enn ágætis möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, en til þess þurfti liðið að vinna í dag.
Vonir liðsins um að bjarga sér frá falli dóu eftir fyrri hálfleikinn. SönderjyskE skoraði þrjú í fyrri hálfleiknum og bætti við fjórða þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.
Sævar Atli lagði upp mark fyrir Lyngby þegar tíu mínútur voru eftir, en það var bara of seint. Heimamenn í SönderjyskE gerðu fimmta markið áður en leikurinn var úti og fall Lyngby staðfest.
Þetta er væntanlega síðasta tímabil Sævars með Lyngby, en hann er sagður nálægt samkomulagi við norska félagið Brann. Þar fær hann tækifærið til að spila aftur fyrir Frey Alexandersson, sem þjálfaði hann hjá bæði Leikni og Lyngby.
Arnór Sigurðsson sneri aftur á völlinn með Malmö í 3-0 sigri liðsins á Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni.
Skagamaðurinn hefur ekki verið með Malmö í síðustu leikjum vegna meiðsla, en hann kom inn af bekknum í dag og spilaði síðasta stundarfjórðunginn.
Daníel Tristan Guðjohnsen var ónotaður varamaður en Gísli Eyjólfsson kom inn á hjá Halmstad. Birnir Snær Ingason var ekki með Halmstad í leiknum.
Malmö er í 5. sæti með 18 stig en Halmstad í 13. sæti með 10 stig.
Athugasemdir