PSV Eindhoven er hollenskur meistari árið 2025 eftir 3-1 sigur á Spörtu Rotterdam í lokaumferð deildarinnar í dag.
Ajax var með níu stiga forystu á toppnum þegar fimm umferðir voru eftir en tókst að kasta henni frá sér.
Í síðustu umferð tapaði Ajax óvænt stigum gegn Groningen og tók PSV toppsætið.
PSV tryggði titilinn með því að vinna Spörtu í dag. Kristian Nökkvi Hlynsson, sem er á láni hjá Spörtu frá Ajax, var í byrjunarliðinu í dag og þá kom Nökkvi Þeyr Þórisson inn af bekknum.
PSV tók forystuna áður en Sparta jafnaði óvænt í byrjun síðari hálfleiks en ákefð PSV var mikil og tókst þeim að skora tvö mörk á síðasta hálftímanum til að tryggja 26. titilinn.
Elías Már Ómarsson skoraði eina mark NAC Breda í 1-1 jafntefli gegn Willem II. Þetta var áttunda mark hans á tímabilinu, en Breda hafnaði í 15. sæti og heldur sæti sínu áfram í deild þeirra bestu.
Rúnar Þór SIgurgeirsson var ekki með Willem II í dag, en liðið er á leið í umspil um sæti í deildinni.
Kolbeinn Birgir Finnsson spilaði síðari hálfleikinn er Utrecht gerði markalaust jafntefli við Fortuna Sittard. Utrecht hafnaði í 4. sæti og fer í Evrópudeildina á næstu leiktíð.
Brynjólfur Andersen Willumsson spilaði rúman hálftíma er Groningen tapaði fyrir PEC Zwolle, 2-0. Groningen hafnaði í 13. sæti.
Athugasemdir