Enski sóknarmaðurinn Jamie Vardy skoraði 200. mark sitt fyrir Leicester City og það í sjálfum kveðjuleiknum er hann kom liðinu í 1-0 forystu gegn Ipswich á King Power-leikvanginum í dag.
Vardy er í byrjunarliði Leicester en þetta er hans allra síðasti leikur fyrir félagið, þó það eigi eftir að spila einn leik til viðbótar í deildinni.
Englendingurinn hafði ákveðið að síðasti heimaleikurinn yrði hans síðasti með félaginu.
Það var skrifað í skýin að hann myndi skora í þessum leik en hann er að spila sinn 500. leik fyrir félagið og vantaði aðeins eitt mark til að komast yfir 200 marka múrinn.
Rúmar 27 mínútur voru komnar á klukkuna þegar James Justin dansaði með boltann fyrir utan teig Ipswich, lagði hann inn á Vardy sem setti boltann í netið og ætlaði þakið að rifna af leikvanginum.
Framherjinn hljóp upp að hornfánanum, reif hann upp og fagnaði eins og enginn væri morgundagurinn. Magnað augnablik.
Nokkrar mínútur eru eftir af hálfleiknum og því enn nægur tími fyrir Vardy að bæta við.
500 APPEARANCES.
— george (@StokeyyG2) May 18, 2025
200 GOALS.
Jamie Vardy, what a way to sign off… pic.twitter.com/ZEQODMBLjR
Athugasemdir