Enski blaðamaðurinn Craig Hope segir í kvöld frá því að Tottenham sé að íhuga að bjóða Crystal Palace að fá brasilíska framherjann Richarlison í skiptum fyrir Eberechi Eze.
Eze er verðmetinn á 60 milljónir punda og samkvæmt Hope vill Tottenham gera Palace tilboð sem verður erfitt að hafna.
Hann heldur því fram að Tottenham sé að íhuga þann möguleika að senda Richarlison sem hluta af skiptunum.
Ef það verður af skiptunum mun Tottenham reyna að kaupa Yoane Wissa frá Brentford, en Thomas Frank, stjóri Tottenham, fékk Wissa til Brentford árið 2021.
Newcastle United hefur verið að reyna kaupa Wissa í allt sumar og síðast í dag var 40 milljóna punda tilboði hafnað. Samkvæmt heimildum Hope er tilfinningin sú að tilboðinu hafi verið hafnað þar sem Brentford vill heldur selja hann til Tottenham.
Fréttirnar um Richarlison koma á óvart í ljósi þess að hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Tottenham á Burnley um helgina, en meiðsli hafa sett stóran strik í reikninginn á þremur árum hans hjá Lundúnafélaginu.
Athugasemdir