Man Utd hefur áhuga á Wharton - Inter hafnaði tilboði Chelsea í Bastoni - Simons vill til Chelsea
   mán 18. ágúst 2025 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þá er hann allt í einu orðinn Dimitar Berbatov"
Sigurður Bjartur fagnar marki með FH í sumar.
Sigurður Bjartur fagnar marki með FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigurður Bjartur Hallsson hefur fundið frábæran takt í liði FH að undanförnu. Með frammistöðu sinni er hann farinn að daðra við atvinnumennsku.

Sigurður Bjartur hefur skorað í fimm leikjum í röð og komið að marki með beinum hætti í átta leikjum í röð en hann var auðvitað á skotskónum í mögnuðum endurkomusigti FH gegn Breiðabliki í gær. Hann hefur gert sjö mörk í síðustu fimm leikjum en aðeins Patrick Pedersen og Eiður Gauti Sæbjörnsson hafa skorað fleiri mörk en hann í Bestu deildinni í sumar.

„Talandi um trú og líka því það vantaði mannskap, en það skiptir ekki máli. Rasmus Höjlund fékk fullt af leikjum því hann var eini framherji Manchester United en hann gat samt ekki skorað til að bjarga lífi sínu. Þetta er enginn smá viðsnúningur," sagði Tómas Þór Þórðarson þegar rætt var um Sigurð Bjart í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Það voru FH-ingar sem ég þekki sem töldu sig einum færri þegar hann var inn á. Hann hefur alltaf hlaupið úr sér lifur og lungu. Núna er hann farinn að skora, og líka bara stórkostleg mörk."

Sigurður Bjartur kom í FH eftir að hafa ekki fundið sig alveg í KR. Hann er núna á sínu öðru tímabili í Hafnarfirði og er að eiga sitt besta tímabil í efstu deild.

„Hann er ekki með mýkstu hreyfingarnar nema þegar hann mætir markverði. Þá er hann allt í einu orðinn Dimitar Berbatov," sagði Tómas Þór. „Þetta er skemmtileg líking," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Hann hefur alltaf hlaupið og alltaf barist en góðir hlutir koma til manna sem nenna þessu," bætti Tómas við.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Afhroð í Kóngsins og spáin fyrir enska
Athugasemdir
banner