Breiðablik er talið sigurstranglegra í einvíginu gegn Virtus, en Höskuldur telur það hafa lítil áhrif á leikmenn.
„Ég finn það bara í þeirri umfjöllun sem hefur verið. Maður veit ekkert mikið um þetta lið, og þessa deild. Að einhverju leiti gæti það bara verið fínt, þannig við erum bara að pæla í okkur og það sem við gerum okkar upp á tíu. Gerum það sem við getum gert, eins vel og við getum gert. Að því sögðu er þjálfarateymið búið að leggja fyrir okkur strategískt leikgreiningu, og prófíla mannskapinn hjá þeim. Ég lít á þetta þannig að þetta er okkar að setja tóninn á Kópavogsvelli á morgun, ekki spurning," sagði Höskuldur.
Breiðablik hefur ekki verið að ná í góð úrslit að undanförnu og langt síðan þeir unnu síðast leik. Leikmenn finna auðvitað fyrir því þegar langt er síðan síðasti sigur kom.
„Þetta er ekki taktur sem við viljum vera í. Alveg eins og þú getur dottið á gott 'rönn' og tengt saman marga sigra. Þá getur alveg myndast mynstur þar sem maður er eitthvað höktandi, og takturinn er ekki alveg upp á tíu. Það er bara kjörið tækifæri á morgun að snúa því gengi við, og byrja að fá w, á blað," sagði Höskuldur.
Þónokkrir lykil leikmenn Virtus liðsins eru vitlausu megin við 35 ára aldurinn. Breiðablik eru með töluvert yngra lið og gætu því mögulega nýtt sér þá orku til að hlaupa yfir liðið líkt og þeir gerðu gegn Egnatia.
„Ég held það svona fyrirfram. Kannski burt séð frá einhverjum aldri hjá þeim. Þá held ég bara að henda í svona sjokkerandi háa ákefð á Kópavogsvelli, þegar að lið mætast og vita ekki alveg við hverju á að búast. Menn ætla aðeins að fara þreifa á hvorum öðrum fyrsta hálfleikinn eða slíkt í einvíginu. Þá að setja bara tóninn strax með háum ákefðar hlaupum fram og til baka, þá er oft erfitt fyrir andstæðinginn að ranka við sér við það. Það er bara eins og í box bardaga, að fá á sig vönkun eftir vönkun," sagði Höskuldur.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.