Man Utd gæti fengið Donnarumma ef Inter kaupir Onana - Tottenham reynir við Eze - Vardy óvænt orðaður við Napoli
   þri 19. ágúst 2025 17:30
Elvar Geir Magnússon
Draumar geta ræst hjá Vestra - „Lífið og fótboltinn eiga það sameiginlegt“
Túfa þjálfari Vals og Davíð Smári þjálfari Vestra.
Túfa þjálfari Vals og Davíð Smári þjálfari Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Túfa þjálfari Vals og Davíð Smári þjálfari Vestra.
Túfa þjálfari Vals og Davíð Smári þjálfari Vestra.
Mynd: KSÍ
Draumar geta ræst hjá Vestra þegar liðið mætir Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli. Ef allt fer að óskum fyrir Djúpmenn þá standa þeir uppi með bikarmeistaratitil og Evrópusæti á föstudagskvöld.

Davíð Smári Lamude hefur náð stórglæsilegum árangri sem þjálfari Vestra. Hann ræddi við Fótbolta.net á Laugardalsvelli og var spurður að því hvort það væri ekki góð tilhugsun að bikarinn gæti verið kominn á Ísafjörð um helgina?

Þurfum að stækka og þora að vinna
„Ég ætla ekki alveg að hugsa það langt, ég er að hugsa út í að liðið mitt sé vel undirbúið fyrir leikinn. Það skiptir gríðarlegu máli að leikmenn séu klárir í það sem fram fer á föstudaginn. Við þurfum að fá orku frá þessu mómenti sem við erum að fara að upplifa með okkar stuðningsmönnum. Við þurfum að stækka á föstudaginn, taka skref fram á við og þora að vinna. Við þurfum að ætla að vinna," segir Davíð.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir mig og ég efast ekki um að leikmenn Vestra munu ekki gera neitt annað en að stækka við tilefnið á föstudaginn. Það er enginn vafi í mér að við getum þetta. Ég er 100% klár á að við getum þetta. Við getum skapað minningar sem verða með okkur um aldur og ævi. Þetta hljómar dramatískt en lífið og fótboltinn eiga það sameiginlegt að við erum að reyna að búa til stórar minningar," segir Davíð.

Ofboðslega góðar minningar
Vestri á góðar minningar frá Laugardalsvelli, þar sem liðið vann úrslitaleik um að komast upp í Bestu deildina fyrir tveimur árum.

„Það mun klárlega hjálpa okkur að við eigum ofboðslega góðar minningar héðan. Við erum rosalega þakklátir fyrir þessar minningar. Fyrir marga sem voru í liðinu þá er þetta eitt það stærsta sem þeir hafa upplifað. Það er rosalega gaman að spóla til baka í hausnum og fara yfir þetta móment, sýna börnunum þetta og upplifa það aftur í sjónvarpinu og annað," segir Davíð.

„Lið Vestra er andlega rosalega stórt og ég tel að liðið stækki enn frekar hér á föstudaginn."

Valur er á toppi Bestu deildarinnar og er sigurstranglegra liðið fyrir leikinn á föstudag. Hvernig lýst Davíð á andstæðingana?

„Það er fátt skemmtilegra en að berjast við lið sem er á toppnum og virðist koma upp úr ákveðinni lægð sem það hefur verið í undanfarin ár. Það er gríðarlega gaman að andstæðingurinn sé stór og við höfum allt að vinna í þessum leik," segir Davíð.

Í viðtalinu ræðir hann einnig um að árangur Vestra sé engin tilviljun, menn hafi lagt á sig mikla vinnu. Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.
Davíð Smári: Virðist dáið á Íslandi að sóknarmaðurinn njóti vafans
Athugasemdir
banner