
Valur og Víkingur unnu flotta sigra í 14. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld.
Valskonur unnu Þróttara, 2-0, á AVIS-vellinum í Laugardal.
Sigur Vals var sannfærandi en það voru heimakonur í Þrótti sem fengu dauðafæri til að komast yfir snemma leiks.
Kayla Marie Rollins fékk laglegan bolta inn fyrir vörnina, tók snertinguna fram hjá Tinnu Brá Magnúsdóttur sem slengdi hendinni í lappirnar á henni og vítaspyrna dæmd.
Katie Cousins steig á punktinn en víti hennar var ekki nógu fast og náði Tinna að verja það nokkuð þægilega.
Valskonur voru mun sterkari og gátu skorað tvö mörk en tréverkið kom Þrótturum til bjargar. Fanndís átti skot úr teignum sem fór í þverslá og síðan annað stuttu síðar. Heppnin ekki alveg með henni þarna.
Markið kom loksins hjá Val. Bryndís Eiríksdóttir átti flotta fyrirgjöf inn á teiginn á Jordyn Rhodes sem hafði betur í baráttunni við Molle Swift, markvörð Þróttara. Þaðan fór boltinn á fjær á Ragnheiði Þórunni Jónsdóttur sem skoraði af stuttu færi.
Það var skorað undir lok hálfleiksins og byrjuðu Valskonur síðari hálfleikinn eins og þær luku þeim fyrri.
Rhodes fékk boltann við vítateigslínuna, skoraði með flottu skoti í boga yfir Mollee og í netið.
Valskonur fengu færin til þess að bæta við fleiri mörkum. Rhodes fór illa með tvö dauðafæri. Í fyrra skiptið var hún að vísu dæmd rangstæð, en náði samt ekki að koma boltanum í netið af stuttu færi og í seinna færinu hljóp hún á fyrirgjöf frá hægri en hitti boltann illa.
Öruggur 2-0 sigur Vals staðreynd. Valsarar eru í 4. sæti með 24 stig en Þróttur í 3. sæti með 29 stig.
Góður sigur Víkings
Víkingur vann Fram, 5-2, á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal eftir svakalegan síðari hálfleik.
Framarar áttu ágætis byrjun og náðu að ógna nokkrum sinnum á fyrstu mínútunum áður en Víkingar tóku við sér. Shaina Faiena Ashouri kom gestunum í forystu á 17. mínútu. Flestir á vellinum héldu líklega að boltinn væri á leið út af, en boltinn söng í netinu.
Víkingskonur fóru með nokkuð sanngjarna forystu inn í hálfleikinn. Nóg af hálffærum, en liðin ekki að gera nægilega vel á síðasta þriðjungi vallarins.
Snemma í þeim síðari bætti Ísfold Marý Sigtryggsdóttir við öðru marki fyrir Víkinga. Bergþóra Sól Ásmundsdóttir kom boltanum inn í og á Ísfold sem tók boltann niður og setti hann í netið.
Ísfold var ekki langt frá því að bæta við öðru skömmu eftir fyrra markið. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom boltanum inn á Ísfold sem tæklaði boltann en Þóra varði og lak boltinn rétt framhjá.
Fimm mínútum síðar refsuðu Framarar er Dominiqe Evangeline Bond-Flasza kom boltanum í netið með þrumuskoti eftir hornspyrnu. Fram komið aftur inn í leikinn en Víkingar náðu aðeins að létta af pressunni nokkrum mínútum síðar er Ashley Clark.
Clark hafði átt erfiðan dag fyrir framan markið en hugarfarið á réttum stað og náði hún loks að uppskera þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka með þrumuskoti.
Framarar létu það ekki á sig fá og héldu spennunni í leiknum er Mackenzie Elyze Smith skoraði. Murielle Tiernan átti skot sem Eva Ýr Helgadóttir varði til hliðar og á Mackenzie sem skoraði.
Nóg af mörkum en þetta var ekki það síðasta. Bergdís Sveinsdóttir, sem var nýkomin inn á hjá Víkingum, gerði fjórða markið eftir fyrirgjöf Ashley Clark áður en Bergdís bætti við öðru marki sínu aðeins nokkrum mínútum síðar. Frábær innkoma hjá Bergdísi sem lagði boltann snyrtilega framhjá Þóru í markinu.
Sex mörk á 22 mínútum í síðari hálfleik. Flóðgáttirnar galopnuðust og áhorfendur eflaust skemmt sér konunglega.
Víkingar ætluðu ekki að hleypa Frömurum of nálægt sér og náðu á endanum að landa öruggum sigri. Fjórði sigur Víkinga í deildinni og liðið nú með 13 stig í næst neðsta sæti en Framarar tveimur sætum ofar með 15 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Þróttur R. 0 - 2 Valur
0-0 Katherine Amanda Cousins ('8 , misnotað víti)
0-1 Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir ('44 )
0-2 Jordyn Rhodes ('50 )
Lestu um leikinn
Fram 2 - 5 Víkingur R.
0-1 Shaina Faiena Ashouri ('17 )
0-2 Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ('49 )
1-2 Dominiqe Evangeline Bond-Flasza ('64 )
1-3 Ashley Jordan Clark ('70 )
2-3 Mackenzie Elyze Smith ('73 )
2-4 Bergdís Sveinsdóttir ('78 )
2-5 Bergdís Sveinsdóttir ('86 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 14 | 12 | 1 | 1 | 56 - 11 | +45 | 37 |
2. FH | 13 | 10 | 1 | 2 | 33 - 15 | +18 | 31 |
3. Þróttur R. | 14 | 9 | 2 | 3 | 27 - 15 | +12 | 29 |
4. Valur | 15 | 7 | 3 | 5 | 22 - 21 | +1 | 24 |
5. Þór/KA | 13 | 6 | 0 | 7 | 23 - 25 | -2 | 18 |
6. Stjarnan | 13 | 5 | 0 | 8 | 17 - 28 | -11 | 15 |
7. Fram | 14 | 5 | 0 | 9 | 20 - 38 | -18 | 15 |
8. Tindastóll | 13 | 4 | 2 | 7 | 18 - 24 | -6 | 14 |
9. Víkingur R. | 14 | 4 | 1 | 9 | 26 - 35 | -9 | 13 |
10. FHL | 13 | 1 | 0 | 12 | 8 - 38 | -30 | 3 |
Athugasemdir