Galdur Guðmundsson skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri KR gegn Fram í kvöld. Þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur fyrir KR frá því að hann kom frá Horsens í sumarglugganum.
Lestu um leikinn: Fram 0 - 1 KR
„Ég er gífurlega sáttur með þetta, mikilvægt að ná í þrjú stig í dag. Þessi stig eru stór fyrir okkur í þeirri stöðu sem við erum í í deildinni," segir Galdur í leikslok.
KR-ingar lágu djúpt til baka undir lok leiks og þurftu að harka til þess að ná inn stigunum þremur.
„Við vorum góðir í því. Ef þu rýnir í töfluna þá voru þessi þrjú stig mjög mikilvæg og við vorum bara tilbúnir í það að leggja smá aukalega á okkur til þess að ná í þessi stig í dag. Ég er gífurlega sáttur með það."
Galdur hafði ekki verið lengi í herbúðum Horsens í Danmörku þegar hann skrifaði undir hjá KR í sumar.
„Óskar var áhugasamur um að fá mig í KR og ég hafði ekki verið á fá þann spiltíma sem ég bjóst við að fá þegar ég skrifaði undir hjá Horsens. Ég var ósátur og vildi spila fótbolta. Óskar þekkir mig sem leikmann, þjálfaði mig í Breiðablik. Mér fannst þetta rétta múvið fyrir mig."
Galdur segir að félagaskipti til Breiðabliks hafi líka verið möguleiki en hann lék með Blikum áður en hann fór út í atvinnumennsku.
„Það var möguleiki en mér leist betur á KR."
Athugasemdir