Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   fös 21. janúar 2022 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Raggi Sig: Svekkjandi að allt sé til staðar nema hausinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Raggi og Hjálmar Jónsson fagna titli í Svíþjóð.
Raggi og Hjálmar Jónsson fagna titli í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Svansson
Fagnað gegn Englandi á EM
Fagnað gegn Englandi á EM
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson staðfesti það í samtali við Fótbolta.net í dag að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna. Ragnar er 35 ára gamall og lék lengstum sem miðvörður. Stærstan hluta ferilsins lék hann í atvinnumennsku en hann hóf ferilinn og lauk honum með Fylki á Íslandi.

Hann fór tvisvar sinnum á stórmót með íslenska landsliðinu og myndaði frábært miðvarðapar með Kára Árnasyni. Alls urðu landsleikirnir 97 talsins og landsliðsmörkin fimm.

Sem atvinnumaður lék Ragnar með Gautaborg í Svíþjóð, FC Kaupmannahöfn í Danmörku, Krasnodar, Rubin Kazan og Rostov í Rússlandi, Fulham á Englandi og Rukh Lviv í Úkraínu.

Hann varð meistari og bikarmeistari með bæði Gautaborg og FCK og þá endaði hann í þriðja sæti rússnesku deildarinnar með Krasnodar árið 2015.

Raggi ræddi við Fótbolta.net í dag og sagði frá ákvörðun sinni.

„Þetta er bara komið gott hjá mér, ég er búinn að vera frekar áhugalaus í þessu síðustu þrjú - kannski fjögur árin," sagði Raggi.

Verið í leit að neistanum síðustu ár
Heimkoman í Fylki, gerði hún ekki alveg það sem þú vonaðist til upp á löngunina að gera?

„Ég er búinn að reyna finna neistann síðan ég hætti hjá Rostov. Þá fékk ég fullt af góðum tilboðum, frá félögum utan Skandinavíu t.d. í Tyrklandi. Það var verið að bjóða mér mjög fína samninga en ég vel að fara til FCK því ég var að reyna fara á einhvern stað sem mig langaði að vera á og hafa gaman af þessu. Þá kom upp Covid og það skemmti svolítið fyrir. Ég tel líklegt að skrefið til FCK hefði gengið betur upp ef ekki hefði verið fyrir faraldurinn."

„Gleðin náði einhvern veginn ekki að koma hjá FCK og svo fer ég til Úkraínu þar sem ég þekkti þjálfarann persónulega. Ég hélt að það gæti orðið eitthvað skemmtilegt en það var alveg hræðilegt. Þá var ég eiginlega búinn að ákveða að hætta, bý í Köben í 4-5 mánuði þar sem ég er ekki að gera neitt, er ekki í vinnu og ekki að spila fótbolta."

„Svo ákveð ég að gefa þessu síðasta sénsinn og kom aftur í Fylki. Þetta var sennilega alveg búið en ég var að reyna halda áfram og það kannski spilaði inn í hvað liðinu gekk illa og mér persónulega líka. Ég sé engan neista koma fram, er búinn að vera reyna finna hann síðustu ár og það hefur ekkert gengið."


Allir svekktir yfir niðurstöðunni
Hvernig var samtalið við Fylki?

„Þeir voru smá svekktir eins og ég sjálfur. Það er svekkjandi þegar manni finnst líkaminn vera í standi og það er allt til alls nema hausinn á manni. Ég held að allir aðilar séu hálf svekktir yfir því að þetta sé niðurstaðan en skildu mig samt mjög vel. Þetta kláraðist allt saman í góðu."

Ekki á leið í þjálfun
Hvað tekur við hjá Ragga Sig?

„Það er bara óráðið ennþá. Eins og er kemur ekki til greina að fara í þjálfun. Ég hef engan áhuga eins og er en það kemur kannski seinna, maður veit aldrei. Ég þurfti að koma mér út úr þeirr skyldu að verða mæta á þessum tíma, gera þetta og hlaupa þangað. Ef ég færi í þjálfun þá væri ég kominn í sama pakkann nema ég þyrfti ekki að hlaupa neitt. Ég ætla fá að stjórna mínu lífi aðeins betur og mínum tíma. Það er aðalatriðið hjá mér núna."

Ætlaru að vera á Íslandi eða erlendis?

„Ég bý hér núna en konan mín er ekki íslensk. Við búum ekkert í besta veðri í heimi þannig ég ætla ekki að útiloka það við munum flytja einhvern tímann út aftur. Eins og er þá erum við hér," sagði Raggi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner