Stjórnarmenn ítalska félagsins Juventus ræða nú innanbúðar um stöðu Thiago Motta, þjálfara liðsins, en ekki er útilokað að hann verði látinn fara fyrir lok tímabils.
Motta var fenginn til Juventus eftir að hafa komið Bologna í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Juventus er ekki lengur að berjast um titla en síðasta mánuðinn datt liðið úr leik í Meistaradeild Evrópu og ítalska bikarnum.
Þá hefur liðið tapað síðustu tveimur deildarleikjum og nú síðast fyrir Fiorentina með þremur mörkum gegn engu. Juventus er tólf stigum frá toppnum og einu frá Meistaradeildarsæti þegar níu umferðir eru eftir.
Fabrizio Romano segir að Juventus sé alvarlega að skoða þjálfaramálin og kemur til greina að reka hann áður en tímabilið er á enda. Það er að segja ef Motta fer ekki að ná í úrslit.
Igor Tudor, fyrrum leikmaður félagsins, er talinn líklegastur til að taka við stöðunni. Tudor þjálfaði síðast Lazio en áður var hann með Marseille, Udinese, Hellas Verona, Hajdukt Split, Galatasaray, Karabukspor og PAOK.
Athugasemdir