Freyr Alexandersson var brattur eftir 1-0 sigur Lyngby gegn Randers í dönsku deildinni um helgina.
Hann var spurður út í möguleg félagsskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar til Lyngby og svaraði því að það væru um helmingslíkur að hann kæmi til félagsins.
Alfreð Finnbogason er nýfarinn frá Lyngby og var Freyr spurður hvort Gylfi gæti fyllt í skarðið sem hann skilur eftir sig. Viðtalið sem fylgir er fengið af vefsíðu Bold.dk.
„Þeir spila ekki sömu stöðuna en það eru viðræður í gangi á milli Lyngby og Gylfa. Ég myndi segja að það séu um helmingslíkur að hann komi til félagsins," svaraði Freyr, sem á í góðum samskiptum við Gylfa eftir samstarf þeirra hjá íslenska landsliðinu.
„Ég get ekki farið ofan í smáatriðin en við erum búnir að setja saman ákveðið plan. Ef okkur tekst að fylgja því plani þá eru góðir möguleikar á að hann verði nýr leikmaður Lyngby."
Gylfi er 33 ára gamall en hefur ekki spilað fótbolta í tvö ár. Hann var síðast hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni en lék þar áður fyrir Tottenham, Swansea og Hoffenheim meðal annars.
Hann er einn af betri leikmönnum í sögu íslenska landsliðsins og verður áhugavert að fylgjast með næsta skrefi á ferli hans. Freyr telur að koma Gylfa til félagsins geti lyft spilamennsku liðsins upp á hærra plan líkt og gerðist þegar Christian Eriksen sneri aftur á völlinn til að spila fyrir Danalið Brentford í ensku úrvalsdeildinni.
„Christian bar félagið á herðum sér og lyfti spilamennskunni upp á hærra plan. Það vita allir að Gylfi er stórkostlegur fótboltamaður."
Frederik Gytkjær er lykilmaður í liði Lyngby og vonast hann til að fá Gylfa til félagsins: „Það væri verulega svalt ef hann kæmi. Ég vona að það geti gerst, allir góðir leikmenn eru velkomnir til Lyngby."
Gylfi var settur í leyfi hjá Everton vegna lögreglurannsóknar varðandi mögulegt kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi en málið var látið falla niður eftir tæplega tvö ár í breska dómskerfinu.
Gylfi ákvað að lösækja ekki breska ríkið vegna málsins.