
Erin McLeod, markvörður Stjörnunnar í Pepsi Max-deild kvenna, er í löngu viðtali sem birtist á vefsíðu FIFA. Þar ræðir hún mikið um Ísland og dvölina á Íslandi.
Hin 37 ára gamla McLeod er á láni frá bandaríska atvinnumannaliðinu Orlando Pride. Kærasta McLeod er íslenska landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem leikur með ríkjandi Íslandsmeisturum Vals.
„Þetta er klárlega mikil prófraun," segir hún um að spila á Íslandi. „Í einum leik sparkaði ég boltanum eins fast og ég gat í markspyrnu og boltinn hékk bara í loftinu - ég held að hann hafi bara farið um 20 metra frá markinu. Það er eitthvað sem þú verður að venjast."
„Það er í raun bilað hversu mikil gæði eru í fótboltanum hérna, miðað við að þetta er bara 300 þúsund manna þjóð. Ísland er að mörgu leyti magnað."
„Ég ber mikla aðdáun fyrir því hvernig þetta land lítur á, ekki bara kvennaíþróttir, heldur kynjamál almennt," segir McLeod. Hún telur að önnur lönd geti lært Íslandi hvað varðar og nefnir hún meðal annars árangurstengdar greiðslur karla- og kvennalandsliðsins.
„Ég held að það sé heildarmyndin sem heillar erlenda leikmenn að koma hingað. Allir tala frábæra ensku - margir leiðrétta málfræði mína - og þér líður eins og þú eigir heima hér. Þú veist líka að þú getur klárað æfingu, keyrt í 30-40 mínútur og séð kletta og fossa sem eru ótrúlegir."
Viðtalið má lesa í heild sinni hérna.
Athugasemdir