Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
   þri 21. október 2025 11:39
Kári Snorrason
Viðtal
Ólafur Ingi: Svona tækifæri koma ekki upp á hverjum degi
Ólafur Ingi Skúlason, nýráðinn þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Ingi Skúlason, nýráðinn þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik mætir KuPS í Sambandsdeildinni á fimmtudag.
Breiðablik mætir KuPS í Sambandsdeildinni á fimmtudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Minn hugur var að klára þessa undankeppni, en svona tækifæri koma ekki upp á hverjum degi.“
„Minn hugur var að klára þessa undankeppni, en svona tækifæri koma ekki upp á hverjum degi.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er mjög heppinn að vera að taka við frábæru búi.“
„Ég er mjög heppinn að vera að taka við frábæru búi.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það voru vendingar í Kópavoginum í gær þar sem Breiðablik tilkynnti að félagið væri búið að segja skilið við Halldór Árnason og hafi ráðið Ólaf Inga Skúlason á samning til tveggja ára.

Ólafur Ingi var þjálfari U21 árs landsliðsins en Breiðablik þurfti að greiða KSÍ fyrir að leysa hann frá störfum í Laugardalnum. Fótbolti.net ræddi við nýráðinn þjálfara Breiðabliks sem segir þetta vera frábært verkefni og er hann spenntur fyrir nýjum kafla á þjálfaraferlinum. 


„Ég er ekki búinn að hitta hópinn alveg, við hittumst á eftir. Fyrsta æfingin er núna seinni partinn í dag. Það er mjög spennandi og við munum undirbúa leikinn gegn KuPS.“ 

Hvernig bar þetta að?

„Þetta gerðist mjög fljótt, maður hafði ekki mikinn tíma til að hugsa þetta. En ég er mjög stoltur að félag af þessari stærðargráðu hafi haft samband við mig. Þetta er eitt stærsta og öflugasta félag landsins. Ég þurfti ekkert mikla sannfæringu.“ 

Kom það á einhverju leyti á óvart að Blikar myndu heyra í þér?

„Ég hef ekkert pælt í því, nei ekkert frekar. Þeir voru auðvitað Íslandsmeistarar í fyrra og þetta er frábært lið. Ég er í rauninni mjög heppinn að vera að taka við frábæru búi, þetta er ótrúlega sterkur og öflugur hópur. Það er góður kúltúr hérna sem auðveldar leiðina að stíga í þetta.“ 

Kveður landsliðsboltann 

Ólafur hafði starfað hjá KSÍ í um fimm ár en hann segir að það hafi verið erfitt að skilja við starfið í Laugardalnum.

“Það var það, ekki spurning. Búinn að vera frábær tími þar og búinn að vinna með frábæru fólki. Orðið tæplega fimm ár og var að sjálfsögðu erfitt. En það var búið að blunda aðeins í manni að það færi að styttast í þetta. Minn hugur var að klára þessa undankeppni, en svona tækifæri koma ekki upp á hverjum degi. Ég var sannfærður um að koma taka slaginn.“ 

Telurðu að þú þurfir tíma til að aðlagast félagsliðaboltanum?

„Auðvitað gæti það tekið einhvern tíma. En ég veit hvernig þetta virkar og ég hef engar áhyggjur af því. Auðvitað er mikið að gerast núna, stutt í næsta leik og úrslitaleikur á sunnudaginn. Maður pælir ekkert í hinu núna, maður dembir sér bara í þetta.“

Stór verkefni strax

Á fimmtudag mætir Breiðablik KuPS í Sambandsdeildinni og því næst tekur við úrslitaleikur um Evrópusæti gegn Stjörnunni á sunnudag. Breiðablik þarf að vinna með tveimur mörkum á sunnudaginn til að tryggja Evrópusæti á næstu leiktíð.

„Það er ótrúlega gaman að koma inn á svona stundu. Það er að sjálfsögðu í mörg horn að líta og mikið að gera. Það er bara gaman, skemmtilegustu leikirnir eru þar sem mikið er undir. Þannig við erum mjög spenntir fyrir þessu.“ 

Ef litið er til næsta tímabils, þá er markmiðið væntanlega skýrt?

„Nú er markmiðið bara að fá góð úrslit á fimmtudaginn. En félag af svona stærðargráðu á að vera berjast um titla, það breytist ekkert. Ég tek það sem sjálfsögðum hlut að stefna félagsins sé að berjast um og að vera á toppnum á deildinni.“ 


Athugasemdir
banner