Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   mán 22. maí 2017 15:10
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Milos: Ég var á leiðinni heim - Sama um kjaftasögurnar
Milos Milojevic er tekinn við þjálfun Breiðabliks.
Milos Milojevic er tekinn við þjálfun Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos var níu ár hjá Víkingum. Fyrst sem þjálfari yngri flokka og leikmaður og svo fór hann í meistaraflokksþjálfun.
Milos var níu ár hjá Víkingum. Fyrst sem þjálfari yngri flokka og leikmaður og svo fór hann í meistaraflokksþjálfun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos hefur mikla reynslu af því að starfa með ungum leikmönnum.
Milos hefur mikla reynslu af því að starfa með ungum leikmönnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsti leikur Milos með Breiðablik verður gegn Ólsurum á sunnudag.
Fyrsti leikur Milos með Breiðablik verður gegn Ólsurum á sunnudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos Milojevic var í dag kynntur sem nýr þjálfari Breiðabliks. Milos sagði upp hjá Víkingi Reykjavík á föstudaginn og segir að Blikarnir hafi heyrt í sér á laugardeginum.

Hann segist hafa verið farinn að búa sig undir að fara heim til Serbíu þegar Blikar höfðu samband.

„Við ákváðum að ræða ekki saman fyrr en eftir leik Víkings og Breiðabliks. Það eru miklar tilfinningar í spilunum enda hef ég verið hjá Víkingi í langan tíma. Þetta var svolítið óþægilegt en ég sagði við Blikana að ég væri tilbúinn að hlusta á þá á mánudeginum." segir Milos við Fótbolta.net.

Næsta frétt kannski að ég sé skilinn
Hann var í stúkunni á leik Víkings og Breiðabliks í gær en yfirgaf völlinn í hálfleik.

„Víkingar voru undir og ég vissi af áhuga Breiðabliks. Maður var alveg ringlaður. Þegar ég hætti á föstudaginn hjá Víkingum sagði konan mín að það væri gott að við gætum loksins tekið okkur sumarfrí. Ég var búinn að panta miða til Serbíu og allan pakkann en nú er það off. Næsta frétt verður kannski að ég sé skilinn," segir Milos kíminn.

Milos segir að viðræður hafi farið fram í dag og þær hafi gengið hratt og vel fyrir sig. Breiðablik hefur verið með Sigurð Víðisson sem bráðabirgðaþjálfara eftir að Arnar Grétarsson var rekinn eftir tvær umferðir.

„Ég taldi að þetta væri gott skref og ég hef trú á því að ég komið þessu liði á „næsta level". Þetta er gott lið og ég tek við góðu búi af Adda (Arnari Grétarssyni)."

Nóg fyrir mig að vita sjálfur sannleikann
Sögusagnir hafa verið í gangi um að Milos hafi sótt um starfið hjá Breiðabliki áður en hann hætti hjá Víkingum. Milos segir þessar sögur ekki sannar.

„Þetta var ekki í plönunum. Það kemur slúður um að ég hafi verið búinn að sækja um vinnu en ég hef ekki sótt neinstaðar um vinnu. Menn hafa hringt í mig. Ég var þjálfari sem var á lausu og þá fékk ég símtal eins og væntanlega fleiri. Á meðan ég veit sjálfur sannleikann þá er það nóg fyrir mig. Mér er sama um þessar kjaftasögur."

„Það hefði vissulega verið best að skilja við Víkingana eftir tímabil þar sem næst Evrópusæti eða bikar. Ég var þarna lengi og mér fannst ég ekki sjá sama „drive" í fólki, kannski er það ekki rétt en það er mín tilfinning. Ég var að pirra mig á hlutum sem ég myndi venjulega ekki pirra mig á," segir Milos.

Á fundi hjá Víkingum á föstudag var mikill hiti en fundurinn var settur á eftir deilur Milos við markvarðaþjálfarann Hajrudin Cardaklija. Að loknum fundinum var talið best að leiðir Víkings og Milos myndu skilja. Milos hefur sjálfur sagt að margir litlir hlutir hafi orðið að stórum og því fór sem fór.

„Ég skynjaði hlutina þannig að ég fengi ekki alveg 100% traust. Þegar það kemur upp ágreiningur milli fólks þá finnst mér að stjórnin þurfi að hafa hugmynd um hvernig þeir sjá vinnuna og ímyndina fyrir sér. Mér fannst menn of hlutlausir. Kannski var hægt að finna aðra lausn en ég hafði ekki góða tilfinningu og ákvað að stíga til hliðar," segir Milos en Dragan Kazic, sem var aðstoðarmaður Milos, stýrði Víkingum í gær og verður mögulega með liðið áfram.

„Ég er alveg viss um að Víkingum muni ganga vel. Þetta er góður leikmannahópur og ég myndi treysta Dragan algjörlega. Hann hefur mikla reynslu og góða menntun. Ég er búinn að vera hjá félaginu í níu ár, ég er ekki óvinur og ég tel að þeir líti ekki á mig sem óvin. Á einhverjum tímapunkti skilja leiðir. Breiðablik kom upp úr engu."

Þarf ekki að finna upp hjólið upp á nýtt
Milos segir að hans verk sé að ná upp sjálfstraustinu innan leikmannahóps Blika og fá betri takt í spilamennskuna.

„Ég virði Arnar mikið sem þjálfara og hann er búinn að gera frábæra hluti. Ég er heppinn að fá liðið frá honum. Það er í góðu formi og þetta er lið sem kann að spila fótbolta. Það þarf bara að skerpa á ákveðnum hlutum. Það þarf ekki að finna upp hjólið upp á nýtt. Það vita allir hvernig fótbolta Breiðablik vill spila og það er nálægt mínum pælingum. Ef menn eru móttækilegir held ég að hægt sé að laga ákveðna hluti strax. Ég er ekki með töfra, ég er ekki David Copperfield, en ég lofa því að ég mun leggja mig allan fram og skila mikilli vinnu. Reynslan hefur kennt mér að vinna mun alltaf skila sér," segir Milos.

Áður en Milos fór í meistaraflokksþjálfun starfaði hann í þjálfun yngri flokkum Víkinga við mjög góðan orðstír.

„Íslenska deildin á að vera stökkpallur fyrir íslenska leikmenn til að komast lengra. Efniviðurinn er hvergi betri hjá Blikum. Þeir eru með stóra yngri flokka og þegar landsliðsúrtök eru skoðuð er áberandi að þeir eru með flesta leikmenn. Það er oft kúnst að sjá hvenær ungir leikmenn eru tilbúnir, bæði fótboltalega og andlega. Leikmenn byrja oft vel en eiga svo erfitt með að höndla pressuna andlega. Maður gerir leikmönnum ekki greiða með því að nota þá of snemma. Hugmyndafræði Breiðabliks er byggð á grunni sem Ólafur Kristjánsson setti upp. Hann er toppþjálfari og allir eru bornir saman við hann. Maður þarf að sanna að maður sé á svipuðum kaliber."

Olgeir Sigurgeirsson, fyrrum leikmaður Blika, verður aðstoðarmaður Milos.

„Ég hafði enga sérstaka ósk um aðstoðarþjálfara og Breiðablik kom með þessa hugmynd. Það er gott að hafa mann sem er þekktur og virtur í leikmannahópnum. Olgeir er það. Hann er Íslandsmeistari, bikarmeistari og leikjahæsti leikmaður félagsins. Þetta er mjög góð lending. Ég hef hitt hann og sé að hann er hæfileikaríkur þjálfari sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksþjálfun. Ég get hjálpað honum í ákveðnum hlutum og hann getur hjálpað mér í ákveðnum hlutum. Svo veit ég að Úlfar Hinriksson verður til aðstoðar þegar á þarf að halda, ég er með sama markvarðaþjálfara og sama Fitness-þjálfara. Þetta er gott teymi og það þarf ekki að gera miklar breytingar," segir Milos að lokum.

Breiðablik og Víkingur Reykjavík hafa bæði þrjú stig að loknum fjórum umferðum í Pepsi-deildinni. Fyrsti leikur Blika með Milos við stjórnvölinn verður gegn Víkingi Ólafsvík næsta sunnudag.
Athugasemdir
banner