Liverpool gæti nýtt sér ákvæði í samningi Semenyo- Ungur miðjumaður á blaði hjá Liverpool og Man Utd - West Ham vill Strand Larsen
   mán 22. desember 2025 10:30
Kári Snorrason
Viðtal
Eftir 350 leiki kallar Ásgeir þetta gott - „Ráðningin á Heimi gerði ákvörðunina enn erfiðari“
Lengjudeildin
„Ég vildi hætta áður en að það yrði kvöð að mæta á æfingar.“
„Ég vildi hætta áður en að það yrði kvöð að mæta á æfingar.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Maður finnur það alveg að fótboltinn hefur hjálpað manni að takast á við mótlæti sem maður tekur eftir ferilinn.“
„Maður finnur það alveg að fótboltinn hefur hjálpað manni að takast á við mótlæti sem maður tekur eftir ferilinn.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir í baráttunni við Hörð Sveinsson.
Ásgeir í baráttunni við Hörð Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég var aldrei nálægt því að fara frá Fylki.“
„Ég var aldrei nálægt því að fara frá Fylki.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Eyþórsson ákvað fyrr í vikunni að láta staðar numið í boltanum og tilkynnti að skórnir væru farnir upp í hillu. Ásgeir, sem er 32 ára, hefur lengi verið lykilmaður hjá Árbæingum. Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild 2011og lék allan sinn feril með uppeldisfélaginu. Alls á hann 350 leiki fyrir félagið að baki, samkvæmt heimasíðu KSÍ.

Fótbolti.net sló á þráðinn til Ásgeirs og ræddi við hann um ákvörðunina.

„Ég var búinn að hugsa þetta eftir tímabilið í fyrra, fann að áhuginn hafi aðeins dvínað hjá mér síðustu ár. Svo eigum við von á okkar öðru barni í byrjun næsta sumars og ég var spenntur fyrir því að eyða meiri tíma með fjölskyldunni og í önnur áhugamál. Auðvitað var þetta mjög erfið ákvörðun, en ég var búinn að finna í nokkurn tíma að áhuginn hafði minnkað. Ég vildi hætta áður en að það yrði kvöð að mæta á æfingar.“

Ásgeir er 32 ára og segir líkamann í góðu standi.

„Það gerði þetta auðvitað erfitt fyrir. Líkaminn var í toppstandi og ég spilaði alla leiki á síðasta tímabili án þess að finna fyrir einhverju. Auðvitað hef ég lent í einhverjum meiðslum en það að vita að maður eigi einhver ár inni gerir ákvörðunina erfiðari. En eins og ég segi fann ég að áhuginn varð minni.“

Slæmt gengi í Árbænum undanfarin tvö tímabil
Fylkir féll úr Bestu deildinni 2024 og endaði í 8. sæti Lengjudeildarinnar eftir að hafa verið spáð í toppbaráttunni í sumar. Spilaði slæmt gengi liðsins inn í ákvörðunina?

„Bæði og í rauninni. Síðustu tvö tímabil hafa verið frekar erfið. Úrslitin ráða auðvitað að miklum hluta hversu skemmtilegt þetta er. Á sama tíma hugsa ég að maður hefði viljað endað þetta á skemmtilegra tímabili.“

„Ég hef eiginlega ekkert æft eftir síðasta tímabil. Ég er búinn að heyra nokkrum sinnum í Heimi. Það er auðvitað annað sem gerir þetta erfiðara, mjög spennandi ráðning á Heimi og skemmtilegt verkefni að fara af stað í Árbænum.

En mér leið eins og ég væri að fara að hætta en ég var aðeins hikandi að taka ákvörðun. Ég melti þetta aðeins áður en ég gaf þetta út endanlega.“


Lítur stoltur til baka
„Ég er auðvitað mjög stoltur af ferlinum. Ég er búinn að spila nokkra leiki og er mjög sáttur við mitt. Það hafa verið hæðir og lægðir í þessu. Maður finnur það alveg að fótboltinn hefur hjálpað manni að takast á við mótlæti sem maður tekur eftir ferilinn. Mig langaði alltaf til þess að spila Evrópuleik með Fylki, það er kannski eina sem ég hefði viljað náð,“ segir Ásgeir en honum finnst tímabilið 2022 er það minnistæðasta.

„Þegar við komumst upp 2022 var mjög skemmtilegt tímabil. Við vorum á mjög góðu skriði og fórum í mörg skemmtileg ferðalög út á land. Það var tímabil þar sem að allt gekk upp.“

Kom aldrei til greina að fara frá Fylki?

„Það var ekki í mörg skipti, það kom tvisvar sinnum upp að ég heyrði frá einhverjum áhuga frá öðrum liðum. Maður pældi eitthvað smá í því, en ég var aldrei nálægt því að fara frá Fylki. Ég hef alltaf verið mjög ánægður það - frábær klúbbur og manni þykir vænt um alla í félaginu. Ég var aldrei nálægt því að fara annað nei.“

Hvað tekur við?
„Maður hefur aðeins meiri tíma til að sinna fjölskyldunni. Síðan verður maður að finna sér einhverja aðra afþreyingu og fá útrás á einhverjum öðrum stað. Síðan er maður auðvitað í krefjandi vinnu, það er fínt að fá meiri tíma í vinnu,“ segir Ásgeir en hann starfar í Seðlabankanum og hefur fengið viðurnefnið Seðlabankastjórinn.

Hann telur þó ólíklegt að hann fari í starf tengt fótbolta á næstu árum en mun láta sjá sig í stúkunni.

„Eins og er finnst mér það frekar ólíklegt. Ég verð alltaf mikill Fylkismaður og mætir í stúkuna í fyrsta leik. Mig langar að vera í kringum félagið en mér finnst ólíklegt að fara út í þjálfun eða eitthvað slíkt.“
Athugasemdir
banner