þri 28.mar 2023 12:45 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|


Ótrúlegt hvað þetta gælunafn hefur haldist við mann
Ásgeir Eyþórsson er einn af reynslumestu leikmönnum Fylkis sem leikur í Bestu deildinni í ár eftir eins árs veru í næst efstu deild. Ásgeir hefur allan sinn feril leikið með Fylki og er mikill félagsmaður. Utan fótboltans starfar Ásgeir í Seðlabankanum - hvorki meira né minna - og er hann með gælunafnið 'seðlabankastjórinn'. Hann segir það henta sér vel að hafa nóg að gera innan sem utan vallar, en í sumar mun hann vera algjör lykilmaður í liði sem stefnir á að halda sér uppi.
'Ég hef alltaf verið smá stærðfræðinörd og ákvað því að prófa að fara í hagfræði í háskólanum eftir menntaskóla. Ég fann mig vel í hagfræðinni og svo eftir að ég tók meistaragráðu í Bandaríkjunum'
'á, maður finnur alveg aðeins fyrir aukinni ábyrgð þegar maður er orðinn einn af eldri leikmönnum liðsins. En það er bara skemmtilegt og gaman að vera í ungu liði með marga leikmenn í kringum sig sem vilja ná lengra'
„Þetta var nú kannski sagt í smá gríni, en ég ætlaði að verða fljótur hafsent sem er góður með boltann og skorar mikið af mörkum.
Held að ég sé orðinn of gamall til að ná þessu fyrsta en get vonandi sýnt að ég er með hitt tvennt í sumar."
Starfar í Seðlabankanum
Ásamt því að spila fótbolta þá hefur Ásgeir frá haustinu 2018 starfað í Seðlabanka Íslands, hefur hann fengið gælunafnið 'seðlabankastjórinn' innan fótboltans á Íslandi.
„Ég hef mjög gaman af svona greiningarvinnu og vinna úr gögnum - það liggur vel fyrir mér. Svo er þetta bara mjög fjölbreytt starf."
„Ég er búinn að vera að vinna í Seðlabankanum frá haustinu 2018 eftir að ég kláraði nám í Bandaríkjunum. Ég er að vinna á fjármálastöðugleikasviði. Ég er að spá í hlutum sem að kannski fáir tengja við og nenna að spá í. Við erum að greina og meta kerfisáhættu í fjármálakerfinu. Það er mikil greiningarvinna og gefum við út ritið Fjármálastöðugleiki tvisvar á ári. Svo fylgir þessu að taka þátt í ýmsu erlendu samstarfi. Ég er mjög ánægður í þessu starfi, það hefur kennt mér mikið og er fjölbreytt. Það getur verið krefjandi en það er bara eitt af því sem er skemmtilegt við það."
„Ég hef mjög gaman af svona greiningarvinnu og vinna úr gögnum - það liggur vel fyrir mér. Svo er þetta bara mjög fjölbreytt starf."
Af hverju ákvað Ásgeir að fara út á þessa starfsbraut?
„Ég hef alltaf verið smá stærðfræðinörd og ákvað því að prófa að fara í hagfræði í háskólanum eftir menntaskóla. Ég fann mig vel í hagfræðinni og svo eftir að ég tók meistaragráðu í Bandaríkjunum var ég bara heppinn að fá starf í Seðlabankanum."
„Ég hef vanalega verið í svona starfi með fótboltanum fyrir utan nokkur sumur þar sem ég var að vinna í fjölskyldufyrirtækinu. Þá var gott að geta vælt í pabba þegar maður þurfti að taka því rólega á leikdögum. En persónulega finnst mér það bara henta mér vel að vera að vinna 100% með fótboltanum og hafa nóg að gera," segir Ásgeir en hvað með gælunafnið sem hefur haldist við hann. Hvað finnst honum um það?
„Það er ótrúlegt hvað þetta gælunafn hefur haldist við mann. Ég hef alveg gaman að því – þó að Seðlabankinn hafi kannski verið aðeins vinsælli fyrir nokkrum árum en hann er núna."
Miðvörðurinn sterki hefur nóg að gera en fær auðvitað líka einhvern frítíma. „Já, maður hefur alltaf einhvern frítíma á kvöldin eftir æfingar og um helgar þó hann sé kannski ekki mjög langur. Nýti hann reyndar helst í einhverja slökun heima - ég er maður sem þarf að fá minn tíma upp í sófa að gera ekki neitt. Ætli maður eyði svo ekki svipað miklum tíma í að horfa á fótbolta og að spila hann."
Alltaf verið í Fylki
Ásgeir, sem er fæddur árið 1993, fór í gegnum alla yngri flokkana hjá Fylki og byrjaði að spila með meistaraflokki félagsins árið 2011.
„Eins og staðan er núna sé ég ekki fyrir mér að spila annars staðar."
„Mér hefur alltaf liðið hrikalega vel í Fylki og ánægður að spila þar. Maður þekkir allt í kringum liði vel og ég á marga frábæra vini þarna. Maður vill alltaf gera vel fyrir uppeldisfélagið þannig að ég hef aldrei verið að leita eftir að færa mig yfir í annað félag. Það var aðallega einhver áhugi eftir þetta tímabil sem ég spilaði með u21 en þá átti ég mjög gott tímabil með Fylki. Maður heyrði af einhverjum liðum sem voru áhugasöm bæði hér heima og erlendis en veit ekki hvað það var mikið til í því, það fór allavega aldrei neitt langt. Eins og staðan er núna sé ég ekki fyrir mér að spila annars staðar en maður veit svo sem aldrei hvað gerist."
Hann nefnir U21 landsliðið en hann var í hópnum sem tók þátt í umspili fyrir EM árið 2014.
„Já, ég átti frekar stuttan landsliðsferil undir lokin hjá U21 áður en ég gekk upp úr því. Það var mjög skemmtilegur tími en get kannski ekki sagt að ég hafi verið eitthvað ótrúlega einbeittur á að spila með landsliðinu eða í atvinnumennsku, þó að maður hafi að sjálfsögðu alltaf viljað ná langt í fótboltanum."
Það voru sögusagnir árið 2014 um að Víkingur vildi fá Ásgeir í sínar raðir en þá var Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings. Ólafur þjálfaði Ásgeir í Fylki. „Það var eitthvað sem ég heyrði aðeins af, man ekki hvort að ég heyrði í Óla beint, en ég var mjög ánægður í Fylki og samdi þar aftur."
Finnur fyrir aukinni ábyrgð
Líkt og áður segir er Ásgeir einn af reynsluboltunum í ungu liði Fylkis. Hann er búinn að taka að sér ábyrgðarhlutverk í liðinu.
„Já, maður finnur alveg aðeins fyrir aukinni ábyrgð þegar maður er orðinn einn af eldri leikmönnum liðsins. En það er bara skemmtilegt og gaman að vera í ungu liði með marga leikmenn í kringum sig sem vilja ná lengra," segir Ásgeir en hann hefur myndað sterkt miðvarðarpar með Orra Sveini Stefánssyni.
„Við þekkjum orðið lítið annað en að spila með hvor öðrum," segir Ásgeir um samstarf sitt með Orra. „En það er frábært að spila með Orra. Við vitum hvar styrkleikarnir hjá hvor öðrum liggja og náum vel saman."
„Mér líst hrikalega vel á sumarið og það er kominn mikill spenningur að fara að byrja þetta. Það verður skemmtilegt að spila í þessu nýja fyrirkomulagi og sanna okkur aftur í efstu deild."
Fylki er spáð falli en Ásgeir telur að liðið sé nægilega gott til að halda sér uppi. „Já, við erum það klárlega. Við gerum okkur grein að við erum að fara í annað og erfiðara verkefni en í fyrra. En ég veit að menn eru hungraðir að standa sig vel og gera vel í efstu deild. Við erum með marga leikmenn sem hafa kannski ekki spilað mjög marga leiki í efstu deild ennþá en vitum alveg sjálfir hversu góðir við erum. Það er bara fínt að vera spáð 11. sæti og gefur okkur frábært tækifæri til að koma fólki á óvart."
Er einhver einn leikmaður í Fylkisliðinu í sumar sem fólk ætti að fylgjast með?
„Það er erfitt að nefna einhvern einn, margir sem ég held að eigi eftir að springa út hjá okkur í sumar. Ég er búinn að vera að kenna litla bróður (Birki Eyþórssyni) hvernig á að skora mörk. Ég hvet fólk aðallega til að fylgjast með því."
Aðspurður að því hvað stendur upp úr á öllum þessum tíma hjá Fylki segir Ásgeir: „Sigurinn í Lengjudeildinni í fyrra kemur fyrst upp í hugann. Ég var farinn út í skóla fyrir lokaleikina þegar við fórum upp um deild 2017 og náði ekki að fagna því þannig að Lengjudeildin í fyrra stendur upp úr. Annars hefur maður tekið þátt í mörgum skemmtilegum tímabilum þar sem við höfum verið nálægt Evrópusæti þegar lítið er eftir þó við höfum ekki náð að klára það enn sem komið er."
Skrifast algjörlega á Ingvar styrktarþjálfara
Baldur Sigurðsson heimsótti æfingu hjá Fylki í vetur og var gerður um það sjónvarpsþáttur sem sýndur var á Stöð 2 Sport og heitir Lengsta undirbúningstímabil í heimi. Í þættinum lenti Ásgeir í vandræðum með að rífa upp 100 kíló í bekkpressu. Ásgeir segir að það sé ekki efst á markmiðalistanum að ná því en það muni takast einn daginn.
„Þetta skrifast algjörlega á Ingvar styrktarþjálfara og ég veit að hann er búinn að vera miður sín eftir að hann sá þetta," segir Ásgeir léttur. „Það er búið að skjóta aðeins á mann eftir að þetta var sýnt þannig að ég verð kannski að fara að setja þetta sem markmið hjá mér. Fókusinn núna er reyndar meira á að geta eitthvað út á fótboltavelli þannig geymi þetta þangað til í vetur – þá ríf ég upp 100 kíló."
Annars er miðvörðurinn stuðningsmaður Fulham og er hann ánægður með tímabilið þar. Hans menn hafa komið öllum á óvart eftir að hafa verið spáð falli fyrir tímabilið. Þeir eru að berjast um Evrópusæti í ensku úrvalsdeildinni.
„Það er hrikalega gaman að vera loksins komnir með alvöru lið í efstu deild sem vinnur einhverja leiki og gefur öllum liðum leik. Við höfum aðeins hikstað í síðustu leikjum og erum að lenda í frekar erfiðum leikbönnum. Sýnist þetta samt allt vera upp á við hjá okkur núna eftir frekar erfið síðustu ár," segir Ásgeir en það er spurning hvort Fylkir nái að gera eins og Fulham í sumar, með því að koma fólki á óvart.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 11. sæti: Fylkir
Hin hliðin - Óskar Borgþórsson (Fylkir)
Athugasemdir