Kaveh Solehokl, fréttamaður hjá Sky Sports, segir það öruggt að Liverpool muni fá nýjan miðvörð á nýju ári, en hann er óviss hvort það muni gerast í janúarglugganum.
Liverpool var nálægt því að fá Marc Guehi, fyrirliða Crystal Palace, undir lok sumargluggans, en Palace hætti við söluna á síðustu stundu.
Hann hefur spilað frábærlega með Palace og enska landsliðinu undanfarna mánuði og eru fleiri félög komin í baráttuna um varnarmanninn sem verður samningslaus eftir tímabilið.
Liverpool gæti reynt að kaupa hann í janúarglugganum en Solhekol telur ólíklegt að Palace sé reiðubúið að selja hann.
„Liverpool mun klárlega kaupa annan miðvörð á næsta ári en ég veit ekki hvort það muni gerast í janúar. Það hefur verið talað um að Guehi gæti verið með heiðursmannasamkomulag við félagið, en það missti af honum á elleftu stundu undir lok síðasta glugga.“
„Mun Liverpool reyna aftur við hann? Ég held það. Vandamálið er að hann getur byrjað að ræða við erlend félög um áramótin. Við vitum að Bayern, Barcelona og Real Madrid hafa öll áhuga og Man City gæti verið í leit að öðrum miðverði.“
„Það eru margir möguleikar í boði fyrir hann en ég sé það bara ekki gerast að Crystal Palace leyfi honum að fara í janúar,“ sagði Solhekol.
Athugasemdir


