Það er búin að vera gríðarleg spenna í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar í kvöld þar sem Þýskaland var fyrsta þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum eftir fjörugt sex marka jafntefli á heimavelli gegn Ítalíu.
Portúgal var önnur þjóðin til að tryggja sig áfram eftir spennandi einvígi við Danmörku. Danir voru talsvert sterkari aðilinn og sigruðu fyrri leikinn 1-0 á heimavelli og ríkti mikil spenna í Portúgal í kvöld.
Cristiano Ronaldo byrjaði heimaleikinn á að klúðra vítaspyrnu en Portúgalir tóku forystuna þegar Joachim Andersen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Staðan var 1-0 í leikhlé en Rasmus Kristensen jafnaði fyrir Dani snemma í síðari hálfleik, með skalla eftir góða hornspyrnu frá Christian Eriksen.
Ronaldo bætti upp fyrir vítaspyrnuklúðrið með því að taka forystuna á ný fyrir Portúgal þegar hann var fljótur að átta sig og fylgdi skoti Bruno Fernandes eftir með marki, en Eriksen var búinn að svara því með góðu marki skömmu síðar, eftir undirbúning frá liðsfélaga sínum hjá Manchester United honum Patrick Dorgu.
Staðan var 2-2 og útlit fyrir að Danir væru á leið í undanúrslitin, en þá kom Trincao inn af bekknum og hafði hann önnur áform.
Trincao kom heimamönnum yfir í þriðja sinn í leiknum á 86. mínútu og var leikurinn framlengdur. Ronaldo var skipt útaf fyrir Goncalo Ramos, sem var strax búinn að leggja upp í upphafi framlengingarinnar. Staðan orðin 4-2 fyrir Portúgal.
Portúgal var talsvert sterkara liðið í framlengingunni, en fram að því höfðu Danir verið að spila mjög góðan leik og tekist að standa vel í stjörnum prýddu liði Portúgala.
Ramos innsiglaði sigur heimamanna á 115. mínútu svo lokatölur urðu 5-2 fyrir Portúgal, eða 5-3 í heildina eftir tap í fyrri leiknum.
Portúgal spilar við Þýskaland í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar.
Portúgal 5 - 2 Danmörk
0-0 Cristiano Ronaldo ('6 , Misnotað víti)
1-0 Joachim Andersen ('38 , sjálfsmark)
1-1 Rasmus Kristensen ('56 )
2-1 Cristiano Ronaldo ('72 )
2-2 Christian Eriksen ('76 )
3-2 Francisco Trincao ('86 )
4-2 Francisco Trincao ('91 )
5-2 Goncalo Ramos ('115 )
Athugasemdir