Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 23. júní 2022 19:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Michael Edwards; tölfræðinördinn sem breytti Liverpool
Michael Edwards með Jurgen Klopp, stjóra Liverpool.
Michael Edwards með Jurgen Klopp, stjóra Liverpool.
Mynd: Liverpool.com
Liverpool hefur náð stórkostlegum árangri síðustu ár.
Liverpool hefur náð stórkostlegum árangri síðustu ár.
Mynd: EPA
Hann náði í bæði Salah og Van Dijk.
Hann náði í bæði Salah og Van Dijk.
Mynd: Getty Images
Michael Edwards er núna orðaður við bæði Chelsea og Manchester United.

Edwards er nýverið hættur störfum hjá Liverpool þar sem hann gegndi mikilvægu hlutverki í leikmannamálum og öðru. Það má færa rök fyrir því að hann sé ekki búinn að vera síður mikilvægur en Jurgen Klopp árangri liðsins síðustu ár.

Edwards var ráðinn til starfa hjá Liverpool árið 2011 og var þá yfirmaður á greiningarsviði félagsins en vann sig upp hjá félaginu og var gerður að yfirmanni íþróttamála nokkrum árum síðar.

Bleacher Report birti grein fyrir tveimur árum þar sem er fjallað um Edwards og farið ofan í það hver þessi maður nákvæmlega er, en hann er ekki mikið þekktur fyrir utan Liverpool þar sem hann er dáður og dýrkaður.

Edwards var sjálfur fótboltamaður og spilaði sem hægri bakvörður í ensku C-deildinni með Peterborough. Hann byrjaði að vinna sem kennari eftir að ferlinum lauk og gerðist svo greinandi hjá Portsmouth. Hann byrjaði að vinna hjá Portsmouth í gegnum fyrirtækið ProZone sem er tölfræðifyrirtæki.

Edwards er sjálfur mikill tölfræðigúru og hefur notað tölfræði hvert sem hann hefur farið í fótboltanum. Hann yfirfærði það hvernig Liverpool notaði tölfræði og hefur það hjálpað félaginu gríðarlega eins og sést hefur á árangri síðustu ára.

Damien Comolli, maðurinn sem fékk Edwards til Liverpool, talaði mikið um það hversu gáfaður Edwards væri og hann væri duglegur að hugsa út fyrir boxið.

Hann og Brendan Rodgers náðu ekki sérlega vel saman, en Rodgers vildi hafa völdin í sínum höndum. Sambandið á milli Edwards og Klopp, núverandi stjóra Liverpool, hefur verið mun betra.

„Edwards, sem er kvæntur og á tvö börn, er sá aðili sem er á bak við það að hafa komið greiningu og tölfræði í daglegt tal hjá Liverpool,” segir í greininni. „Það er líklegra Edwards sjáist í gallabuxum, pólóskyrtu og í strigaskóm en í jakkafötum og með bindi. Edwards er mikils metinn á bak við tjöldin hjá Liverpool.”

Simon Wilson, sem spilaði með Edwards hjá Peterborough og starfaði síðar með honum hjá Prozone, segir að vinur sinn sé miklu meira en bara einhver tölfræðigúru.

„Hann er með mikið af góðum eiginleikum, en ég held að sá besti sé ákvörðunartaka hans,” segir Wilson og bætir:

„Ég held að það sem hann hefur afrekað hjá Liverpool væri draumur hvers fótboltafélags. Að snúa svona félagi við á þann hátt sem hann hefur gert; ungir leikmenn sem komast í gegn, lítil eyðsla og bæting á hverju ári. Liverpool er besta lið í heimi í augnablikinu. Þeir eru dáðasta félagið og Michael hefur verið stór hluti af því,” sagði Wilson árið 2020.

Edwards hefur staðið á bak við kaup á leikmönnum eins og Van Dijk, Sadio Mane, Roberto Firmino, Allison Becker og Mohamed Salah; leikmönnum sem hafa slegið í gegn og hjálpað Liverpool að komast á þann stað þar sem það er núna.

Hann ákvað að hætta núna eftir tíu ár, honum fannst vera kominn tími á breytingu bæði fyrir sjálfan sig og félagið.

Það verður gaman að sjá hvert næsta skref hans verður, en eins og áður segir er hann núna orðaður við Chelsea og Manchester United. Hann myndi eflaust hjálpa þeim félögum mikið með þeim aðferðum sem hann vinnur eftir.
Athugasemdir
banner