Rashford gæti tekið við keflinu af Kvaratskhelia - Margir möguleikar í boði fyrir Kolo Muani - Dortmund og Lazio vilja leikmann Chelsea
   þri 23. nóvember 2021 11:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Stendur ekki og fellur á því hvort Óttar og Sindri hafi farið"
Jói Kalli
Jói Kalli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Snær
Sindri Snær
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Óttar Bjarni
Óttar Bjarni
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Tveir reyndir leikmenn, sem spiluðu stórt hlutverk í sumar, hafa yfirgefið leikmannahóp ÍA nú í haust. Óttar Bjarni Guðmundsson samdi við Leikni og Sindri Snær Magnússon samdi við Keflavík.

Það eru ekki einu leikmennirnir sem hafa yfirgefið ÍA en Aron Kristófer Lárusson er farinn í KR, Arnar Már Guðjónsson verður ekki áfram og svo er óvíst hvar Ísak Snær Þorvaldsson spilar á næsta ári.

Fótbolti.net ræddi við Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfara ÍA, í dag og spurði hann út í stöðuna á hópnum.

Ætla fá inn miðvörð og miðjumann
Hvernig ætlið þið að tækla það að missa Óttar og Sindra?

„Við erum að vinna í þeim málum. Auðvitað var svekkjandi að missa Óttar og Sindra, toppdrengir og flottir fótboltamenn. En við erum með fullt af öðrum leikmönnum í hópnum hjá okkur; Alex Davey skrifaði undir nýjan samning og Wout Droste verður áfram. Við erum einnig með fullt af ungum leikmönnum," sagði Jói Kalli.

„Við viljum geta haft góða blöndu af eldri og reyndari mönnum með svo okkar ungu og efnilegu leikmönnum sem við getum gefið meiri spiltíma. Við ætlum okkur að fylla þessi skörð. Við þurfum að sækja okkur miðvörð og ætlum að sækja okkur miðjumann - það er alveg klárt. Við ætlum að vanda okkur vel í þeirri vinnu og finna leikmenn sem passa inn í það sem við erum að reyna gera."

„Á sama tíma viljum við fá menn sem eru tilbúnir að taka við ákveðnu leiðtogahlutverki og hjálpa þeim leikmönnum sem fyrir eru að verða betri. Það er módelið okkar, við ætlum að keyra það fulla ferð, styrkja hópinn með 2-3 virkilega öflugum leikmönnum. Vonandi verða komnir öflugir leikmenn og öflugir karakterar inn í hópinn strax í janúar."


Stendur ekki og fellur á því
Þeir Óttar og Sindri hafa spilað síðustu þrjú tímabil með ÍA og þekkja vel inn á hópinn. Það hlýtur að vera ákveðið högg að missa leikmenn sem þekkja út á hvað hlutirnir snúast.

„Já, algjörlega. Við gerum okkur grein fyrir því en liðið okkar og það sem við erum að gera sem fótboltalið og félag stendur ekki og fellur á því hvort Óttar Bjarni og Sindri verði áfram eða hafi farið. Óttar og Sindri hafa skilað fínu verki en við höfum trú á því og vitum að við getum sótt okkur öfluga leikmenn. Við erum búnir að taka vel til í leikmannahópnum okkar og möguleikinn er fyrir hendi að sækja mjög öfluga leikmenn. Þannig það er eitthvað sem við ætlum okkur að gera."

„Glaður að Aron Kristófer hafi fengið tækifæri til að fara í KR"
Hvað hugsaru þegar þú sérð að Aron Kristófer er farinn í KR? Voru vonbrigði að ná ekki að halda honum?

„Það er bara þannig að stundum skilja leiðir og ég var bara glaður að Aron Kristófer hafi fengið tækifæri til að fara í KR. Hann býr náttúrulega í Reykjavík og ég vona að honum gangi sem best. Við viljum geta gefið ungum leikmönnum, sem koma upp í gegnum starfið okkar, tækifæri og við teljum okkur eiga möguleika á að halda því áfram. Við teljum leikmenn sem eru að koma upp hjá okkur nógu góða til að spila í efstu deild."

„Við óskum Aroni góðs gengis, hann spilaði fullt af leikjum fyrir okkur og var flottur - sérstaklega á þessum kafla undir lok tímabilsins."

„En það er bara sama svar og með Óttar og Sindra. Knattspyrnufélagið ÍA stendur ekki né fellur með einum-tveimur leikmönnum. Við höldum ótrauðir áfram og við ætlum okkar að sækja, ekki of marga, en við ætlum að sækja öfluga leikmenn sem koma til með að styrkja okkur verulega. Við viljum fá týpur sem hafa reynslu og kannski öðruvísi getu og þekkingu en það sem er til staðar í leikmannahópnum. Með því myndum við styrkja okkur vel,"
sagði Jói Kalli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner