Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 24. maí 2023 21:29
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Blikar unnu FH með marki í uppbótartíma - Fyrsti sigur Tindastóls
Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði sigurmark Blika
Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði sigurmark Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mackenzie Marie George skoraði bæði mörk FH
Mackenzie Marie George skoraði bæði mörk FH
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Murielle Tiernan gerði sigurmark Tindastóls gegn Stjörnunni
Murielle Tiernan gerði sigurmark Tindastóls gegn Stjörnunni
Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Andrea Rut Bjarnadóttir var hetja Breiðabliks er liðið vann FH, 3-2, í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Tindastóll vann þá fyrsta sigur sinn í deildinni er liðið lagði Stjörnuna að velli, 1-0, á Sauðárkróki.

Blikar voru töluvert betri en FH-ingar í fyrri hálfleiknum og var það því algjörlega gegn gangi leiksins er Mackenzie Marie George kom FH-ingum í forystu á 31. mínútu.

Mackenzie fór með einleik á kantinum. Hún fór illa með Vigdísi Lilju áður en hún skaut að marki. Telma Ívarsdóttir varði en skotið var fast og lak boltinn í markið.

Blikar jöfnuðu níu mínútum síðar. Agla María Albertsdóttir átti skot sem fór í slá og var Hafrún Rakel Halldórsdóttir fyrst að átta sig og stangaði boltann í netið.

FH var heppið að vera ekki marki undir í hálfleik en Toni Deion Pressley kom boltanum á markið en Arna Eiríksdóttir bjargaði á línu.

Hildur Þóra Hákonardóttir kom Blikum í 2-1 á 75. mínútu eftir aukaspyrnu Öglu Maríu. Hún þurfti bara rétt að koma við boltann til að koma honum í netið. Þremur mínútum síðar gerði Hildur mistök hinum megin á vellinum sem kostaði jöfnunarmark frá Mackenzie og staðan því 2-2.

Þegar rúmar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma tókst Blikum að gera sigurmarkið. Andrea Rut Bjarnadóttir gerði það eftir að Hafrún Rakel hafði farið illa með Colleen Kennedy og rúllaði boltanum fyrir Andreu sem skoraði.

3-2 sigur Blika staðreynd en liðið er nú í 3. sæti með 9 stig en FH í neðsta sæti með 4 stig.

Fyrsti sigur Tindastóls

Tindastóll vann sinn fyrsta sigur í deildinni er liðið sigraði Stjörnuna, 1-0, á Sauðárkróki.

Stjarnan var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og var Monica Elisabeth Wilhelm að eiga stórleik í markinu. Stjarnan fékk urmul af færum til að taka forystuna en inn vildi boltinn ekki og staðan markalaus í hálfleik.

Heimakonur tóku forystuna á 58. mínútu. Murielle Tiernan skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Aðeins mínútu síðar vildu Stjörnukonur fá vítaspyrnu er Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir féll í teignum en ekkert dæmt.

Stólarnir náðu að halda út og vinna sinn fyrsta sigur í deildinni og er liðið nú komið upp í 8. sæti með 5 stig en Stjarnan í 5. sæti með 7 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Breiðablik 3 - 2 FH
0-1 Mackenzie Marie George ('31 )
1-1 Hafrún Rakel Halldórsdóttir ('40 )
2-1 Hildur Þóra Hákonardóttir ('75 )
2-2 Mackenzie Marie George ('78 )
3-2 Andrea Rut Bjarnadóttir ('90 )
Lestu um leikinn

Tindastóll 1 - 0 Stjarnan
1-0 Murielle Tiernan ('58 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner