Breiðablik varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Íslandsmeistara Vals í Bestu deild kvenna þetta tímabilið en það var Barbára Sól Gísladóttir sem gerði sigurmarkið í 2-1 sigri liðsins við erfiðar aðstæður á Kópavogsvelli. Stjarnan hafði betur gegn Fylki, 2-1, í Miðgarði í Garðabæ.
Blikar og Valur höfðu bæði unnið alla fimm leiki sína í deildinni fram að þessum toppslag.
Valskonur voru kraftmeiri í fyrri hálfleiknum. Nadía Atladóttir kom sér í fínasta færi á 20. mínútu en náði ekki nægilega góðu skoti og varði Telma Ívarsdóttir það örugglega.
Nokkrum mínútum síðar var Katie Cousins nálægt því að koma Val í forystu eftir að hún tók viðstöðulaust skot á lofti, en boltinn small í stönginni.
Á 34. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Anna Rakel Pétursdóttir átti sendingu á Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur, sem klobbaði Ástu Eir Árnadóttur áður en hún skaut boltanum framhjá Telmu í markinu. Guðrún náði að nýta sér vindinn í þessari skotstöðu, en veðrið hafði sín áhrif á leikinn.
Blikakonur komu öflugar inn í síðari hálfleikinn og voru að skapa alls konar vandræði fyrir Val.
Birta Georgsdóttir kom sér í úrvalsfæri er hún hljóp með boltann framhjá Fanneyju í markinu. Hún ákvað hins vegar að senda boltann fyrir markið og rann færið út í sandinn.
Jöfnunarmarkið kom skömmu síðar. Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði með glæsilegu skoti eftir sendingu frá Ölöfu Sigríði Kristinsdóttur. Andrea tók glæsilegan snúning á varnarmann Vals áður en hún þrumaði boltanum í netið.
Sjö mínútum síðar kom sigurmark Blika. Agla María Albertsdóttir fékk boltann eftir hornspyrnu, kom með þennan glæsilega bolta á fjær á Barbáru Sól sem skallaði hann í netið.
Valskonur náðu ekki að svara markinu og urðu lokatölur 2-1 fyrir Blikum sem eru á toppnum í deildinni með 18 stig á meðan Valur er í öðru sæti með 15 stig. Mögnuð titilbarátta í vændum.
Þriðji sigur Stjörnunnar
Stjörnukonur unnu þriðja leik sinn í deildinni er þær lögðu Fylki að velli, 2-1, í Miðgarði.
Færin voru á báða bóga í byrjun leiks. Guðrún Karitas Sigurðardóttir átti skot í utanverðu stöngina en það var Stjarnan sem gerði fyrsta markið.
Hulda Hrund Arnarsdóttir fékk boltann inn fyrir og skoraði af miklu öryggi.
Eftir harða hríð Stjörnunnar á lokamínútum fyrri hálfleiks kom annað markið er Hannah Sharts þrumaði boltanum í netið.
Tæpum hálftíma fyrir leikslok bjargaði Andrea Mist Pálsdóttir á marklínu. Þórhildur Þórhallsdóttir tók hornspyrnu beint á hausinn á Kaylu Bruster sem skallaði í átt að marki. Boltinn var á leið inn áður en Andrea kom Stjörnukonum til bjargar.
Stuttu síðar fengu Fylkiskonur markið sem þær voru að leita að en það gerði Eva Rut Ásþórsdóttir beint úr aukaspyrnu. Laglegt mark hjá fyrirliðanum.
Á lokamínútum leiksins var Fylkir nálægt því að jafna en aftur var bjargað á línu frá Burster. Í þetta sinn var það Gyða Kristín Gunnarsdóttir sem bjargaði á línu.
Stjörnukonur voru ákveðnar í halda fengnum hlut og notuðu öll brögð til þess að vinna niður klukkuna. Á lokamínútunum héldu þær boltanum upp við hornfánann og virkaði það. Lokatölur 2-1 fyrir Stjörnunni sem fer upp í 4. sæti deildarinnar með 9 stig en Fylkir með 5 stig í 8. sæti.
Úrslit og markaskorarar:
Stjarnan 2 - 1 Fylkir
1-0 Hulda Hrund Arnarsdóttir ('25 )
2-0 Hannah Sharts ('45 )
2-1 Eva Rut Ásþórsdóttir ('71 )
Lestu um leikinn
Breiðablik 2 - 1 Valur
0-1 Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir ('34 )
1-1 Andrea Rut Bjarnadóttir ('64 )
2-1 Barbára Sól Gísladóttir ('71 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Valur | 18 | 16 | 1 | 1 | 48 - 16 | +32 | 49 |
2. Breiðablik | 18 | 16 | 0 | 2 | 46 - 9 | +37 | 48 |
3. Þór/KA | 18 | 9 | 3 | 6 | 40 - 28 | +12 | 30 |
4. Víkingur R. | 18 | 8 | 5 | 5 | 28 - 29 | -1 | 29 |
5. FH | 18 | 8 | 1 | 9 | 30 - 36 | -6 | 25 |
6. Þróttur R. | 18 | 7 | 2 | 9 | 23 - 27 | -4 | 23 |
7. Stjarnan | 18 | 6 | 3 | 9 | 22 - 34 | -12 | 21 |
8. Tindastóll | 18 | 3 | 4 | 11 | 20 - 41 | -21 | 13 |
9. Fylkir | 18 | 2 | 4 | 12 | 17 - 34 | -17 | 10 |
10. Keflavík | 18 | 3 | 1 | 14 | 16 - 36 | -20 | 10 |
Athugasemdir