Ég tel mig hafa bætt mig í þessum litlu grunnatriðum eins og sendingum, móttökum og líða vel á boltanum
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þór/KA, var besti leikmaður 7. umferðar Pepsi Max-deildar kvenna að mati Fótbolta.net. Hún fær þá nafnbót fyrir frammistöðu sína gegn Val.
Fyrirliðinn fór fyrir sínu liði þegar liðið gerði 1-1 jafntefli á Origo vellinum. Arna verður 29 ára seinna á árinu og spilar hún sem miðvörður.
Fyrirliðinn fór fyrir sínu liði þegar liðið gerði 1-1 jafntefli á Origo vellinum. Arna verður 29 ára seinna á árinu og spilar hún sem miðvörður.
„Það er mjög sterkt að koma á Hlíðarenda og taka stig, við þurfum á stigum að halda svo við fögnum því klárlega. Hins vegar voru tækifæri til að sækja þrjú, við vorum að koma okkur í fínar stöður til að gera vel og sækja en það vantaði aðeins upp á ákvarðanatökur og aðeins meiri gæði sóknarlega. Svo við hefðum klárlega viljað meira."
„Heilt yfir er ég mjög sátt með okkar frammistöðu og stelpurnar. Við vorum þéttar og gáfum fá færi á okkur og vorum að halda bolta vel á tímum. Það vantaði smá hugrekki til að klára þetta," sagði Arna við Fótbolta.net aðspurð hvort stiginu hefði verið fagnað eftir leik.
Er árangur og spilamennska Þór/KA á pari við væntingar?
„Það vantar aðeins uppá hjá okkur. Við viljum vera með fleiri stig og höfum verið að tapa leikjum þar sem við erum að spila vel. Við erum ekki ánægðar með stöðuna sem við erum í en það er nóg eftir af þessu og pláss fyrir framfarir. Við eigum inni."
Betri tæknilega - Mikið lagt upp úr andlega þættinum
Arna var á láni hjá Glasgow City í Skotlandi fyrri hluta árs. Arna hafði áður á ferlinum leikið með Gautaborg í Svíþjóð og Verona á ítalíu.
Finnst þér þú koma til baka sem betri leikmaður eftir veruna þar? Í hverju bættiru þig?
„Já, ég myndi segja það. Glasgow er þannig lið að við erum mikið með boltann. Liðin bakka mikið á móti okkur og við erum mikið með boltann. Það er mikið lagt uppúr því að halda bolta og spila í fáum snertingum. Í Covid pásunni vorum við að æfa tvær og tvær saman, mikið af tækni. Eitthvað sem maður eyðir ekkert of miklum tíma í á æfingum."
„Ég tel mig hafa bætt mig í þessum litlu grunnatriðum eins og sendingum, móttökum og líða vel á boltanum."
„Síðan er líka hugsað mikið um andlegu hliðina. Við hittum íþróttasálfræðing vikulega í febrúar og mars og hann kom á æfingar nokkrum sinnum í viku. Við gátum leitað til hans og spjallað og ég tel mig vera sterkari þar."
Besta upplifunin af atvinnumennsku
Áttu þér drauma um frekari atvinnumennsku?
„Ég get vel hugsað mér að fara út aftur. Ég var svona nánast búin að afskrifa það áður en ég fer til Skotlands. En þessi reynsla af atvinnumennsku var sú besta sem ég hef upplifað. Mér leið hrikalega vel og fannst ég vaxa og þroskast þar."
Farið út hrædd um að standa sig ekki og ekki liðið vel
Ertu búin að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi til að reyna taka næsta skref sem leikmaður?
„Ég er svo sem ekki að gera neitt öðruvísi sem leikmaður, ég er að hugsa betur um mig og er í betra formi en ég hef verið. Hef verið að taka til í hausnum og mataræði og fleira. Ég tel mig vera á betri stað andlega til að fara út í svona."
„Mér líður vel, er sterkari andlega og hef fulla trú á mér. Sem er sennilega í fyrsta skipti á ferlinum, ég hef farið út með vont hugarfar og bara verið hrædd. Hrædd um að standa mig ekki eða vera ekki nógu góð og þar af leiðandi ekki liðið vel. Það var allt annað upp á teningnum núna og ég fór með allt annað hugarfar en ég hef gert áður," sagði Arna að lokum.
Athugasemdir