Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
banner
   mán 24. ágúst 2015 08:30
Alexander Freyr Tamimi
Atli Viðar: Þeir þurfa jafn mikið á þessum stigum að halda
Atli Viðar og félagar mæta í Breiðholtið í kvöld.
Atli Viðar og félagar mæta í Breiðholtið í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH er á góðri leið með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þegar sex umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni, en liðið mætir Leikni í Breiðholtinu klukkan 18:00 í kvöld.

Atli Viðar Björnsson hefur komið sterkur inn í lið FH undanfarnar vikur og raðað inn mörkunum, en hann býst við mjög erfiðum leik gegn Leiknismönnum þó svo að liðin séu á afar ólíkum stað í töflunni.

„Við vitum að við erum að fara í virkilega erfiðan leik og staðan á stigatöflunni gefur okkur ekki neitt þegar komið verður út á völl í kvöld, þá er þetta bara 11 á móti 11 og þrjú stig í boði, stig sem við ætlum okkur að taka með heim," segir Atli Viðar við Fótbolta.net, en hann býst við hörkuleik.

„Ég á ekki von á öðru en þetta verði baráttuleikur, þeir þurfa alveg jafn mikið á þessum stigum að halda og við og þeir munu því væntanlega koma vel stemmdir í þennan leik. Við erum það líka, búnir að undirbúa okkur vel frá síðasta leik, höfum verið að bæta leik okkar smátt og smátt í síðustu leikjum og höldum því vonandi áfram."

Atli Viðar vill ekki hugsa of langt í titilbaráttunni og horfir bara til leiksins í Breiðholtinu í kvöld. Hann segir FH-inga þó hafa mikla trú á því að þeir geti orðið Íslandsmeistarar í ár.

„Það er bara gamla klisjan um að það eru öll stig og allir leikir mikilvægir en enginn þó mikilvægari en næsti leikur sem er sá eini sem skiptir máli og því er þessi leikur á móti Leikni í kvöld það eina sem kemst að hjá okkur og stigin þrjú sem þar eru í boði," segir Atli Viðar.

„Við viljum vera efstir þegar síðasti leikur verður flautaður af í byrjun október og trúum því allir sem eru í og í kringum FH liðið að við höfum góða möguleika á því að það verði að veruleika. Til að svo verði þurfum við að leggja á okkur mikla vinnu og ég held að hver einasti maður í FH liðinu sé til í það og að leggja ansi mikið á sig til að niðurstaðan verði í samræmi við okkar væntingar í haust."

„En við vitum líka að Breiðablik og KR eru með frábær lið sem munu ekki tapa mörgum stigum í viðbót þannig að við þurfum að halda vel á okkar spilum."


Atli Viðar fagnar því að hafa náð að vinna sér inn sæti í byrjunarliði FH á nýjan leik og skora mörk.

„Jú ekki spurning, það hefur gengið vel undanfarnar vikur bæði hjá mér og liðinu og það er fátt skemmtilegra en að fá að spila með í FH liðinu og tala nú ekki um þegar við spilum fótbolta eins og við getum best.
Athugasemdir
banner
banner
banner