Argentínumaðurinn Carlos Tevez hefur verið ráðinn sem aðalþjálfari hjá Talleres de Córdoba í heimalandinu.
Hann tekur við eftir gríðarlega mikil þjálfaravandræði innan herbúða Talleres sem hefur verið með fimm mismunandi þjálfara við stjórnvölinn á þessu ári, og er Tevez sá sjötti. Þrír þessara þjálfara voru aðeins ráðnir til bráðabirgða í skamman tíma í senn.
Þetta er þriðja þjálfarastarfið sem Tevez tekur að sér á ferlinum eftir að hafa áður verið við stjórnvölinn hjá Rosario Central og Independiente. Hann entist í 24 leiki hjá Rosario og stýrði svo Independiente í 32 leiki.
Rosario var aðeins með 25% sigurhlutfall undir stjórn Tevez en það gekk betur hjá Independiente, sem var með tæplega 44% sigurhlutfall.
Tevez er 41 árs gamall og spilaði 76 leiki á landsliðsferli sínum með Argentínu. Hann tapaði þremur úrslitaleikjum í Copa América með þjóð sinni.
Á félagsliðaferlinum gerði Tevez garðinn frægan með báðum Manchester-liðunum en lék einnig fyrir West Ham, Juventus og Boca Juniors meðal annars.
Athugasemdir