City hefur sett verðmiða á McAtee - Real til í að bíða eftir Konate og hefur áhuga á Saliba
   mán 21. júlí 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sjáðu mögnuð aukaspyrnumörk Hulk gegn Palmeiras
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Hinn 38 ára gamli Hulk, sem á 39 ára afmæli eftir helgi, hefur verið í feykistuði með Atlético Mineiro í brasilíska boltanum.

Hulk, sem er þekktur fyrir að vera einstaklega kröftugur og skotfastur sóknarleikmaður, skoraði bæði mörk liðsins í 3-2 tapi gegn Palmeiras í nótt.

Hulk skoraði fyrst jöfnunarmark Atlético undir lok fyrri hálfleiks með glæsilegri aukaspyrnu og minnkaði svo muninn niður í eitt mark með stórkostlegu marki á 91. mínútu, aftur beint úr aukaspyrnu.

Atlético fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateiginn og skoraði Hulk ótrúlegt mark með gjörsamlega óverjandi bylmingsskoti í markmannshornið.

Þetta var fjórða mark Hulk í síðustu þremur leikjum með Atlético, en hann hefur verið hjá félaginu síðustu fjögur ár eftir að hafa áður leikið með FC Porto, Zenit frá Pétursborg og Shanghai Port í Kína.

Hulk skoraði 11 mörk í 49 leikjum þegar hann lék fyrir brasilíska landsliðið frá 2009 til 2021.

Atlético er í níunda sæti í brasilísku deildinni, með 20 stig eftir 14 umferðir. Liðið er sex stigum á eftir Palmeiras sem á leik til góða.


Athugasemdir
banner