„Bara sáttur með strákana, sáttur með frammistöðuna,“ sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, eftir 1-0 sigur gegn Vestra á heimavelli í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 0 Vestri
„Sáttur með hversu góð tök við höfðum á leiknum og mikla stjórn við höfðum á leiknum. Við vorum agaðir, tókum okkur góðar stöður þegar við vorum með boltann hátt á vellinum, góðar varnarstöður líka þannig það er bara mjög margt sem ég var sáttur með, og góðar stöður sem við sköpuðum okkur sóknarlega líka,“ hélt hann svo áfram.
Blikar undirbúa sig nú fyrir næsta Evrópueinvígi en þeir mæta Lech Poznan á útivelli á þriðjudaginn og svo aftur á heimavelli á miðvikudegi viku seinna. Hvernig meta Blikar sína möguleika í því einvígi?
„Við erum að fara að spila við hrikalega sterkt lið. Við þurfum bara að fara inn í þann leik og reyna að læra eitthvað af honum. Fara á fullu, reyna að vinna leikinn af sjálfsögðu, ná í úrslit úti og eiga séns hérna heima. Þetta er lið sem að er stór á evrópskum mælikvarða en við höfum sýnt það í Evrópu að við getum náð í úrslit á flestum stöðum þannig að við förum inn í þann leik bjartsýnir en við þurfum bara að vera sannir okkur, sannir okkar gildum, spila okkar leik og reyna að ná einhverju út úr þessum leik.“
Viðtalið við Arnór Svein má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.