Tyrklandsmeistarar Galatasaray eru búnir að ná samkomulagi við Ítalíumeistarana í Napoli um kaupverð fyrir Victor Osimhen. Fabrizio Romano greinir frá þessu.
Osimhen var stjörnuleikmaður Galatasaray á síðustu leiktíð þar sem hann raðaði inn mörkunum á lánssamningi frá Napoli.
Tyrkirnir voru staðráðnir í því að kaupa Nígeríumanninn og enda á að borga rúmlega 80 milljónir evra fyrir.
Galatasaray borgar 40 milljónir beint til Napoli og aðrar 35 milljónir á næsta ári. Þar að auki geta 5 milljónir bæst við til viðbótar í árangurstengdar aukagreiðslur og eru einnig tvö önnur ákvæði með í kaupsamningnum.
Annað ákvæðanna segir til um háa sekt sem Galatasaray þarf að greiða ef félagið selur Osimhen aftur í ítalska boltann á næstu tveimur árum.
Hitt ákvæðið segir til um hagnað á endursöluvirði leikmannsins, þar sem Napoli heldur 10% af hagnaðinum ef leikmaðurinn verður seldur frá Galatasaray á hærra verði en hann var keyptur fyrir.
Þessi félagaskipti eru ótrúlega jákvæðar fréttir fyrir Galatasaray, enda er Osimhen gríðarlega öflugur framherji sem var meðal annars eftirsóttur af ýmsum stórveldum úr ensku úrvalsdeildinni í sumar.
Athugasemdir