Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   fim 24. október 2024 16:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Smáradona leggur skóna á hilluna - „Líður vel í hjartanu að kveðja með félagið á þessum stað"
'Frábær tímapunktur núna að segja þetta gott'
'Frábær tímapunktur núna að segja þetta gott'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lokaleikurinn á ferlinum verður gegn Val.
Lokaleikurinn á ferlinum verður gegn Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjálpaði ÍA að vinna Lengjudeildina í fyrra.
Hjálpaði ÍA að vinna Lengjudeildina í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Að hafa náð að hjálpa til, innan vallar, er mér dýrmætt'
'Að hafa náð að hjálpa til, innan vallar, er mér dýrmætt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það hefur verið ómetanlegt að vinna með svoleiðis þjálfara'
'Það hefur verið ómetanlegt að vinna með svoleiðis þjálfara'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fór frá ÍA til Heerenveen sem unglingur.
Fór frá ÍA til Heerenveen sem unglingur.
Mynd: SVG
'Það gæti ekki verið betra og ég gæti ekki verið sáttari'
'Það gæti ekki verið betra og ég gæti ekki verið sáttari'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta eru algjör forréttindi sem ég er rosalega þakklátur fyrir'
'Þetta eru algjör forréttindi sem ég er rosalega þakklátur fyrir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Smárason spilar á laugardag sinn síðasta leik á ferlinum, fyrirliði Skagamanna er að leggja skóna á hilluna eftir tveggja áratuga feril. Hann fór meiddur af velli í leiknum umtalaða gegn Víkingum um síðustu helgi en ætlar sér að spila á laugardaginn gegn Val, allavega einhverjar mínútur.

Arnór hefur farið víða á sínum ferli. Hann fór með fjölskyldu sinni til Molde í Noregi þegar hann var 15 ára og ári síðar, áður en hann náði að spila með meistaraflokki ÍA, samdi hann við Heerenveen í Hollandi þar sem hann til 2010. Í kjölfarið lék hann með Esbjerg, Helsingborg, Torpedo Moskvu, Hammarby og Lilleström áður en hann hélt heim til Íslands árið 2021. Hann lék með Val í tvö tímabil áður en hann hélt heim á Akranes þar sem hann er að klára sitt seinna ár. Á sínum tíma lék Arnór 26 leiki með A-landsliðinu og skoraði þrjú mörk.

„Það verða allavega einhverjar mínútur á laugardaginn, það er 100%," segir Arnór við Fótbolta.net.

Grátlegt, en svona gerist í fótbolta
„Þetta var geggjaður leikur, rosalegur leikur," segir Arnór um leikinn gegn Víkingi. Hann fer ekki leynt með að það sé svekkjandi að það sé ekkert undir fyrir ÍA í lokaleiknum eftir ótrúlega atburðarás í síðasta leik.

„Það er bara grátlegt. Við, leikmenn, þjálfarar og allir, trúðum að það væri ennþá möguleiki á að ná þessu Evrópusæti. Ef allt hefði verið eðlilegt þá værum við að fara í hreinan úrslitaleik við Valsarana um 3. sætið í deildinni. Árangurinn er frábær hvort sem er, en það hefði verið sturlað að ná 3. sætinu. Það hefði kryddað þennan lokaleik ennþá meira. En svona gerist í fótbolta, dómarar gera mistök og við leikmenn gerum mistök, þótt það sé erfitt, þá verður maður að sætta sig við það. Ég vona að ÍA noti sér þetta sem olíu á eldinn fyrir næsta ár, mæti ennþá meira hungraðir til leiks. Að vera svona grátlega nálægt þessu á fyrsta tímabili aftur í efstu deild, er klárlega eitthvað til að byggja á. Eins svekkjandi og þetta er akkúrat núna, þá vona ég að það sé hægt að nota þetta í eitthvað jákvætt fyrir næsta tímabil."

Frábær tímapunktur til að segja þetta gott
Hvenær ákvað Arnór að þetta yrði hans síðasta tímabil?

„Þetta hefur blundað í mér strax frá því að ég kom upp á Skaga. Fyrsta plan var að taka eitt ár og taka stöðuna. Fyrsta árið gekk eins og í sögu, ég spilaði allar mínútur og við fórum upp. Mér fannst ég alveg inni að taka eitt tímabil í viðbót. Ég fór og gerði eins fyrir þetta tímabil, fór inn í það sem mitt síðasta og ætlaði að leggja líf og sál í þetta. Það gekk mjög vel líkamlega fyrri hlutann, spilaði flesta leiki, en hef svo misst af rest þannig séð. Fyrir mig verður ákvörðunin að hætta bara léttari fyrir vikið, frábær tímapunktur núna að segja þetta gott með ÍA liðið á þeim stað sem það er í dag samanborið við fyrir tveimur árum. Mér líður rosalega vel með þessa ákvörðun."

Rétta leiðin fyrir ÍA
ÍA féll úr Bestu deildinni 2022 eftir að hafa rétt bjargað sér frá falli haustið 2021. Í dag er liðið í 5. sæti og óheppni að liðið sé ekki á leið í úrslitaleik við Val um Evrópusæti.

„Verkefnið byrjaði þegar Jón Þór kom inn í hlutina hjá ÍA aftur. Horfandi á það utan frá þá hefur hann gjörbreytt dæminu hérna, á ótrúlega stóran þátt í því eins og fleiri menn. Menn tóku sig saman og stokkuðu upp í þessu, Skagamenn sóttir í liðið og kjarninn byggður á því í bland við sterka leikmenn annars staðar frá og erlendis. Það þarf að leggja alvöru vinnu í að fá réttu mennina í hópinn og það hefur tekist frábærlega. Mér finnst eins og allir séu á sömu línu hvað þetta varðar. Það hefur sýnt sig að þetta er leiðin fyrir ÍA og það eru bjartir tímar framundan."

Spennandi framtíðarplön
Það hafa orðið á skrifstofunni hjá ÍA. Ingimar Elí Hlynsson tók við sem framkvæmdastjóri í sumar.

„Ingimar Elí kom inn með sinn kraft, sína áru og sína ástríðu. SVo eru fleiri menn að koma inn á skrifstofuna, bróðir minn (Sverrir Mar) sem dæmi er að koma í markaðsmálin. Við erum að fá fleiri fótboltaþenkjandi menn inn á skrifstofuna, menn sem eru á sömu blaðsíðu."

„Það koma líka oft upp góðir leikmenn úr yngri flokkunum og núna eru mjög margir góðir, spennandi og ungir leikmenn, það sést á yngri landsliðunum. Það er undir ÍA komið að hjálpa þessum strákum að taka næsta skref. Skrefið frá 2. flokki yfir í meistaraflokk er stórt. Það er stærra en margir gera sér grein fyrir, þess vegna erum við með Kára (venslaliðið) verkefnið í gangi sem mér finnst hafa tekist rosalega vel síðustu ár og verður bara stærri og stærri partur af starfinu hjá ÍA. Strúktúrinn og framtíðarplönin líta mjög vel út, sem er spennandi."


Gæti ekki verið sáttari
Arnór segist hafa vitað það strax sem unglingur að hann vildi klára ferilinn með uppeldisfélaginu.

„Já, ég nefndi það alltaf að mig langaði að klára ferilinn hjá ÍA. Það var alltaf bakvið eyrað á manni. Ég er rosalega þakklátur fyrir þetta traust sem ég fékk um leið og ég gekk inn um dyrnar hérna. Það eru forrétindi fyrir mig að klára langan og góðan feril heima. Það gæti ekki verið betra og ég gæti ekki verið sáttari."

Líður vel í hjartanu
Það veitir Arnóri mikla gleði að hafa náð að klára ferilinn með uppeldisfélaginu, náð að spila með liðinu í efstu deild og sýna hversu öflugur leikmaður hann er.

„Það gerir ákvörðunina núna svolítið létta að segja þetta gott. Ég er stoltur af því að hafa komið inn í félagið á erfiðum tímum og verið partur af því að byggja liðið upp aftur. Það er mjög ljúft að hafa náð að sýna að maður var ekki alveg búinn þegar maður kom fyrir tveimur árum síðan. Að hafa náð að hjálpa til, innan vallar, er mér dýrmætt. Mér líður vel í hjartanu að kveðja með félagið á þessum stað"

Mun starfa í kringum fótbolta
Hvað tekur við hjá Arnóri?

„Það er mjög góð spurning, það er ekkert komið á hreint. Ég er með nokkra bolta á lofti, bæði hérna heima og erlendis. Það kemur bara í ljós á næstu vikum eða næstu mánuðum í hvora áttina ég fer. En það verður klárlega eitthvað tengt fótbolta, ég get ekki farið nánar út í það núna. Ég mun taka mér gott frí með konunni og börnunum tveimur, förum erlendis og leyfum framtíðinni að koma til okkar."

Aðspurður segir Arnór að hann hafi haldið góðu sambandi við félögin sem hann lék með erlendis.

„Ég hef alltaf reynt að tileinka mér í gegnum ferilinn að enda á góðum nótum, hvar sem ég hef verið. Mér hefur alltaf fundist það vera mikilvægt. Það er partur af mér sem persónu að skilja við félögin í góðu. Ég er í sambandi við gamla þjálfara, yfirmenn og félögin almennt, kannski einna helst Hammarby og Lilleström. Það eru síðustu tveir klúbbarnir sem ég spilaði með áður en ég kom heim og eru hvað næst mér. Svo fylgist maður mikið með og þekkir mikið af fólki í kringum þessa klúbba."

Líður alltaf vel í 88
Viðtalið við Arnór var mun lengra og verða fleiri hlutar af því birtir á næstu dögum. Í lok viðtalsins barst talið að treyjunúmerum, þau voru nokkur, m.a. framherjanúmerið 9 hjá Esbjerg en svo 4 hjá Torpedo Moskvu sem er ekki algengt númer fyrir sóknarsinnaðan leikmann. Hjá Lilleström og ÍA var hann svo númer 88.

„Ég fór í árið sem ég er fæddur, '88, Lileström og ÍA eru í sömu litum, mér fannst þetta liggja vel við, líður alltaf vel í númer 88." Hjá Lilleström fékk hann gælunafnið Smáradona frá stuðningsmönnum félagsins.

„Það eru forréttindi að hafa fengið að vinna við að vera fótboltamaður, vinna við áhugamálið sitt í öll þessi ár. Ég er kominn á 37. ár og er ennþá að vinna sem fótboltamaður. Þetta eru algjör forréttindi sem ég er rosalega þakklátur fyrir."

Ómetanlegt að vinna með svoleiðis þjálfara
Í lokaorðum sínum kom Arnór inn á samband sitt við þjálfara Skagamanna.

„Það er geggjað að fá að vinna og vera fyrirliði í liði sem er með Jón Þór Hauksson sem þjálfara. Hann er frændi minn og allt það, en hann er bara geggjaður þjálfari. Samband okkar þessi tvö ár, samband þjálfara og fyrirliða, ég met það ótrúlega mikils. Allir okkar fundir í gegnum þessi tvö ár, að vera með þjálfara sem ég hef verið með, það hefur verið ómetanlegt að vinna með svoleiðis þjálfara," segir Arnór.
Athugasemdir
banner
banner
banner