Hafrún Rakel Halldórsdóttir (Breiðablik)
Hafrún Rakel Halldórsdóttir er leikmaður umferðarinnar í Bestu deild kvenna eftir að hafa bæði skorað og lagt upp mark í 3-2 dramatískum sigri Breiðabliks gegn FH í gær.
Hafrún Rakel var öflug í leiknum en hún lagði upp dramatískt sigurmark fyrir Andreu Rut Bjarnadóttur í uppbótartímanum.
Hafrún Rakel var öflug í leiknum en hún lagði upp dramatískt sigurmark fyrir Andreu Rut Bjarnadóttur í uppbótartímanum.
Sjá einnig:
Sterkasta lið 5. umferðar - Stólarnir eiga flesta fulltrúa
„Það var alltaf eitthvað að gerast í kringum Hafrúnu. Hún var alltaf að hugsa fram á við, skapa hættu og valda usla. Hún skoraði fyrsta mark Blikana og lagði svo upp sigurmarkið þar sem hún átti frábæran sprett upp vinstri kantinn áður en hún lagði boltann út á Andreu," skrifaði Elíza Gígja Ómarsdóttir í skýrslu sinni frá leiknum.
Hafrún Rakel hefur verið óheppin með meiðsli að undanförnu en hún spilaði aðeins tvo deildarleiki í fyrra út af því. Hún hefur verið að koma sterk til baka í ár sem eru gleðifréttir fyrir Blika.
Hafrún, sem er tvítug að aldri, á að baki fimm A-landsleiki fyrir Ísland en hún getur bæði spilað sem bakvörður og á kanti. Hún var síðast í landsliðinu í febrúar síðastliðnum.
Fyrri leikmenn umferðarinnar:
1. umferð - Katla Tryggvadóttir (Þróttur R.)
2. umferð - Ásdís Karen Halldórsdóttir (Valur)
3. umferð - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Stjarnan)
4. umferð - Sandra María Jessen (Þór/KA)
Athugasemdir