Það var létt og skemmtileg stemning, margir áhorfendur og plötusnúður á svæðinu. Fótbolti.net ræddi við Cecilíu Rán Rúnarsdóttur eftir æfinguna.
Það var létt yfir hópnum á æfingunni en eins og venjulega var farið í keppni milli yngri og eldri leikmanna sem þær yngri töpuðu, aldrei þessu vant.
„Það var tónlist allan tíman sem var geggjað, maður er vanur þessu í leikjum svo það sló mann ekkert úf af laginu."
„Það er svakalegur rígur milli eldri og yngri. Yngri hafa unnið skotkeppnina síðustu skipti þannig það var mjög leiðinlegt að tapa í dag. Maður kemur sterkur til baka í næstu," sagði Cecilía.
Cecilía er búin að ná sér alveg af meiðslum á hendi. Hún gat ekki æft í marki í nokkrar vikur.
„Ég er orðin alveg 100% sem er geggjuð tilfinning. Þetta leið hratt, ég mátti gera allt nema að vera í marki. Mér fannst mjög gaman að vera úti á meðan ég gat ekki verið í marki. Núna þegar ég er komin aftur í markið finnst mér það 15 sinnum skemmtilegra," sagði Cecilía.
Cecilía varð pínu stressuð á að ná ekki EM vegna meiðsla.
„Um leið og mér var sagt að ég þyrfti að fara í aðgerð var þetta smá stress. Svo talaði ég við lækni og þá fékk ég á hreint að þetta yrði ekkert stress."