
„Ég er sáttur að þetta hafi endað svona," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA eftir ótrúlegt jafntefli gegn Stjörnunni í gær.
Lestu um leikinn: Þór/KA 3 - 3 Stjarnan
„Það voru ekki margir sem sáu þetta fyrir í hálfleik. Fyrri hálfleikur var algjör eign Stjörnunnar, þetta var leikur kattarins af músinni og við afhentum þeim það sem þær vildu og ótrúlegt að þær hafi ekki tekið meira," sagði Jóhann.
Þór/KA fór inn í hálfleikinn 3-0 undir en kom til baka í seinni hálfleik.
„Ég verð að taka það á mig hvernig við komum til leiks í þennan leik, það er eitthvað í undirbúningnum sem gekk mjög illa hjá mér. Þetta leit út fyrir að vera hræðsla, einhver óttablandin virðing fyrir andstæðnignum," sagði Jóhann.
„Við töluðum um það í hálfleik að góð lið taka ekki tvo svona hálfleika í röð. Við þurftum að laga þetta sem lið svo geta einstaklingar dílað við hitt eftir leik eða næstu daga."