Blikar stóðust pressuna og hlekkirnir fóru af
„Mér líður ótrúlega vel. Betur en mér hefur liðið lengi," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag. Á sunnudaginn mætast Víkingur og Breiðablik í hreinum úrslitaleik um sigur í Bestu deildinni. Það er gríðarleg eftirvænting fyrir þessum risastóra leik.
„Við höfum verið í þeirri stöðu að spila á eftir liðinu sem við erum í baráttu gegn. Við höfum þurft að standa okkur að ná úrslitum og við höfum ekki mátt misstíga okkur í langan tíma. Eftir Stjörnuleikinn fóru allir hlekkir af. Núna er bara tilhlökkun og gleði. Við erum mjög sigurvissir og okkur líður vel fyrir sunnudeginum."
Allir hlekkir farnir af núna
Breiðablik þurfti að ná í góð úrslit í síðustu umferð gegn Stjörnunni til að halda vonum sínum á lífi. Fyrr um þann dag hafði Víkingur lagt ÍA að velli en mikil umræða var um stór dómaramistök í þeim leik. Mark var ranglega tekið af ÍA undir lokin í stöðunni 3-3. Víkingar fóru svo upp og skoruðu. Blikar höfðu engan áhuga á því að láta Íslandsmótið enda þannig en ef þeir hefðu tapað gegn Stjörnunni, þá hefði mótið svo gott sem verið búið. Blikar stóðust pressuna og bjuggu til úrslitaleik.
„Frá því við töpum gegn FH í júní höfum við nánast ekki mátt tapa stigi. Á meðan við erum með örlögin í okkar höndum, þá erum við í forréttindastöðu. Okkur hefur liðið mjög vel með það. Öllu liðinu hefur tekist mjög vel að útiloka utanaðkomandi áhrif sem við höfum ekki stjórn á. Við höfum lítið pælt í öðrum leikjum og annað. Við vöknum síðasta laugardag með það í huga að við urðum að vinna Stjörnuna og ætlum okkur þennan úrslitaleik," segir Halldór.
„Svo er það þannig að það spilast annar leikur (ÍA - Víkingur) þegar við erum að undirbúa okkur fyrir Stjörnuna og það er alltof langt í okkar leik til þess að útiloka það fyrir leikmenn. Við héldum í það að þetta væri í okkar höndum, en ég efast um að það hafi gerst lengi að íslenskt lið spili undir eins mikilli pressu og Breiðabliksliðið gerði gegn Stjörnunni eftir atburði dagsins. Þúsund leikir og þrjú ár af uppbyggingu til þess að búa til þennan úrslitaleik. Menn vöknuðu daginn eftir og þá voru allir hlekkir farnir af. Það er þvílík tilhlökkun fyrir sunnudeginum."
Besta lið deildarinnar síðan í júní
Halldór er ekki sammála því að Blikar séu ólíklegri aðilinn fyrir sunnudaginn, þeir séu undirmagninn. Víkingar eru með betri markatölu og þurfa bara jafntefli í leiknum. Breiðablik þarf að vinna til að taka Íslandsmeistaratitilinn.
„Ég sé okkur alls ekki sem 'underdogs'. Við erum síðan í júní búið að vera besta liðið í þessari deild. Ég sé það þannig í síðustu þremur leikjum hafa Víkingar gert gríðarlega vel í að koma til baka þrisvar til að tryggja sér þennan leik. Við förum í leikinn til að vinna hann. Það hefði verið úr karakter fyrir okkur að duga eitthvað jafntefli," segir Halldór og bætti við í lokin að leikplanið fyrir leikinn á sunnudaginn hefði verið klárt þegar hann vaknaði daginn eftir Stjörnuleikinn.
Athugasemdir